Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, segir í yfirlýsingu að ályktanir lögreglufélaga, gegn embætti ríkislögreglustjóra, ekki vera til þess fallnar að skapa frið um störf lögreglu. Þá segir að yfirlýsingar sem „ali á ótta“ geti verið til þess fallnar að bitna á öryggi almennings og það sé ámælisvert.
Töluverðar deilur hafa verið innan lögreglunnar, og þá einkum í garð Ríkislögreglustjóra, að undanförnu, en í fréttum RÚV hefur meðal annars komið fram að þær tengis fatamálum lögreglu og bílamálum, ásamt öðrum málum.
Nú síðast sendi Lögreglufélag Suðurnesja frá sér tilkynningu í morgun þar sem því var fagnað að Ríkisendurskoðun myndi ráðast í stjórnsýsluúttekt á embætti Ríkislögreglustjóra.
„Við þetta ástand verður ekki unað enda kastar það rýrð á lögregluna og störf hennar sem grefur undan því mikla trausti sem almenningur ber til lögreglunnar. Á endanum gæti þetta ástand því komið niður á öryggi almennings,“ segir í yfirlýsingunni.