Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur og formaður Trans Íslands, svarar fyrrverandi skólastjóranum Guðmundi Oddssyni og formanni Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í morgun en hann hafði meðal annars áhyggjur af því hvort búið væri að skipta þjóðfána Íslendinga út fyrir regnbogafánann.
Hann viðraði skoðanir sínar í grein í Morgunblaðinu í fyrradag um viðbrögð ýmissa fyrirtækja við heimsókn varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence, í síðustu viku en mörg hver flögguðu regnbogafánanum til að styðja við málstað hinsegin fólks.
Guðmundur bað félagsmenn í golfklúbbnum afsökunar á greininni í gærkvöldi í gegnum tölvupóst sem Kjarninn hefur undir höndum. Í honum segir hann að hann hafi orðið þess áskynja að hanni hafi sært ákveðna félagsmenn með þessari grein en að það hafi aldrei verið ætlunin. „Mér þykir það leitt og bið þá sem það á við innilegrar afsökunar,“ skrifar hann.
Pence þekktur fyrir grófa fordóma gagnvart hinsegin fólki
„Ekki er að undra að Guðmundi hafi fundist regnbogafánamálið frekar dramatískt, enda ekki á hverjum degi sem þjóðarleiðtogi annars ríkis kemur á klakann. Ekki er Mike Pence heldur bara hvaða þjóðarleiðtogi sem er, heldur þjóðarleiðtogi sem er þekktur fyrir grófa fordóma gagnvart hinsegin fólki í þokkabót,“ skrifar Ugla Stefanía í grein sinni.
Hún útskýrir ítarlega ástæðu þess að regnbogafáninn blakti við hún þegar varaforsetinn kom til landsins. „Hún var sú að Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, finnst að það sé í lagi að reka fólk eins og mig úr vinnu og neita mér um þjónustu fyrir það eitt að vera eins og ég er. Ekki finnst honum það bara í lagi, heldur hefur staðið fyrir lagasetningum og breytingum á lögum sem leyfa það.
Hann styður sömuleiðis svokallaðar „afhommunarbúðir“, þar sem er reynt að fá fólk til að hætta að vera hinsegin með öfgafullum hætti, eins og t.d. pyntingum, heilaþvotti og ofbeldi. En það veit allt vel þenkjandi fólk að ekki er hægt að neyða fólk til að vera eitthvað sem það er ekki, enda held ég að þá enginn myndi vera hinsegin.“
Hinsegin dagar lengi verið mikilvægur hluti af íslenskri dægurmenningu
Henni finnst jafnframt mikilvægt að árétta að Hinsegin dagar séu hátíð sem hefur verið til í nær tvo áratugi – og í raun lengur ef kröfugöngur frá ’93 og ’94 séu taldar með – en ekki einungis nokkur ár eins og Guðmundur telur.
Hinsegin dagar hafi því lengi verið mikilvægur hluti af íslenskri dægurmenningu. „Mér þykir það miður að Guðmundi þyki ekki mikið til hátíðarinnar koma og hvet ég hann og allt það fólk sem hefur ekki gert það nú þegar að skella sér á næsta ári. Við munum taka vel á móti ykkur. Þar eru ýmsir fræðsluviðburðir, skemmtanir, ganga og annað skemmtilegt og eflandi fyrir gesti og gangandi. Þessi hátíð er haldin til að vekja athygli á hinsegin málefnum og hverju þarf enn að berjast fyrir svo við getum öll lifað í réttlátu og frjálsu samfélagi – og auðvitað til þess að fagna fjölbreytileikanum í okkar litla og víðsýna samfélagi,“ skrifar hún.
Guðmundur þarf litlar áhyggjur að hafa
Í grein sinni spyr Guðmundur hvers fólk sem er ekki hinsegin eigi nú að gjalda. „Ég get huggað Guðmund með því að hann þurfi nú að hafa litlar áhyggjur af því, enda er staða fólks sem er ekki hinsegin yfirburðagóð. Engin lög eru í gildi neins staðar í heiminum sem hefta frelsi þess né þarf það að óttast fordóma, skilningsleysi og jafnvel ofbeldi fyrir það eitt að vera ekki hinsegin. En það er alltaf í myndinni að stofna bara sína eigin hátíð og sýna þannig frumkvæði. Það ætti nú að vera lítið mál ef áhyggjurnar eru einlægar og drifkrafturinn til staðar.“
Enn fremur hefur Guðmundur áhyggjur af börnum og viðkvæmri stöðu þeirra í skrifum sínum. „Mér finnst það frábært að hann láti sig málefni barna varða, enda er það eitthvað sem er mikið baráttumál fyrir mér að börnum á Íslandi líði vel. Hinsegin ungmenni upplifa mikla vanlíðan vegna þess að þau geta ekki verið þau sjálf og upplifa jafnvel einelti í skólum fyrir það að vera hinsegin eða sýna hegðun sem fellur út fyrir normið. Það er því rosalega mikilvægt að við byggjum frjálst og réttlátt samfélag þar sem fólk getur verið það sjálft og fengið að vera hamingjusamt.“
Trans fólk fullkomlega fært um að eignast börn
Að lokum bendir Ugla Stefanía á að enginn þurfi að hafa sérstakar áhyggjur af lítilli fjölgun þjóðarinnar, eins og Guðmundur virðist hafa. „Íslendingar hafa aldrei verið fleiri og þrátt fyrir að fæðingartíðni hafi lækkað hérlendis þá efast ég stórlega um að það sé vegna trans fólks. Trans fólk er nefnilega fullkomlega fært um að eignast börn líkt og allt annað fólk.“