Mun fleira ungt fólk hefur ekki lokið framhaldsskólaprófi hér á landi en að meðaltali innan ríkja OECD eða alls 19 prósent fólks á aldrinum 25 til 34 ára. Aftur á móti er hlutfall háskólamenntaðra á sama aldri hærra hér á landi en að jafnaði innan OECD og hefur það hlutfall hækkað hratt á síðustu árum. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Efnahags og framfarastofnunar (OECD) um menntun.
Hærri atvinnuþátttaka
Í nýrri skýrslu OECD um menntun eru greindar ýmsar upplýsingar um stöðu skólakerfa í OECD-ríkjunum, þar á meðal menntunarstig þjóðar og fjármögnun skóla. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að hlutfall fólks á aldrinum 25 til 34 ára sem ekki hefur lokið framhaldsskólaprófi er að meðaltali 15 prósent innan ríkja OECD. Það er lægra hlutfall en hér á landi þar sem 19 prósent ungs fólks án framhaldsskólamenntunar, samkvæmt skýrslunni.
Enn fremur kemur fram í skýrslunni að hér á landi er atvinnuþátttaka ungs fólks án framhaldsskólaprófs mjög há hér á landi eða alls 80 prósent samanborið við 60 prósent að jafnaði innan OECD.
Mun færri innflytjendur útskrifast úr framhaldsskóla.
Í tölum Hagstofunnar má sjá að skólasókn innflytjenda í leikskóla, framhaldsskóla og háskóla er að jafnaði lægri en skólasókn innlendra hér á landi. Mestur er munurinn í framhaldsskóla en hlutfallslega færri innflytjendur en innlendir byrja í framhaldsskóla við 16 ára aldur og skólasókn þeirra lækkar meira fyrir hvert aldursár.
Ef tölur ársins 2017 eru skoðaðar má sjá að nærri allir innlendir á 16. aldursári sækja framhaldsskóla, en átta af hverjum 10 innflytjendum. Á 19. aldursári sóttu um sjö af hverjum 10 innlendum íbúum framhaldsskóla, en aðeins um tveir af hverjum 10 innflytjendum.
Í greiningu Hagstofunnar segir að endurtekning þessa mynsturs á árunum 2008 til 2017 gefur vísbendingu um að brotthvarf úr framhaldsskóla sé algengara meðal innflytjenda en innlendra. Jafnframt hafa flestir þeirra innflytjenda sem sækja framhaldsskóla hér landi dvalist á Íslandi í meira en níu ár.
Framlög á hvern háskólanema enn undir meðaltali OECD
Í skýrslu OECD eru framlög ríkja á hvern háskólanema einnig borin saman. Á árinu 2016, sem eru nýjustu tölur skýrslunnar, voru framlög á hvern háskólanema hér á landi enn undir meðaltali OECD ríkjanna eða um 94 prósent af meðaltalinu.
Framlög Íslands hafa þó aukist milli ára en árið 2015 námu framlögin 81 prósent af meðaltali OECD og hækkuðu því um 13 prósentustig á einu ár. Ef litið er á tímabilið 2010 til 2016 þá hafa framlög Íslands hækkað um 43 prósent á meðan meðal hækkun framlaga innan OCED 8 prósent. Ísland er þó enn undir meðaltali OECD.
Fleiri konur með háskólapróf
Hlutfall háskólamenntaðra á aldrinum 25 til 34 ára vaxið mikið hér á landi á síðustu tíu árum eða úr 33 prósent í 47 prósent í fyrra, samkvæmt skýrslunni. Menntunarstig þessa aldurshóps er svipað og í Noregi og Svíþjóð sem er yfir meðaltali OECD. Þá hafa mun fleiri konur lokið háskólaprófi í þessum aldurshóp hér á landi eða 56 prósent kvenna en 39 prósent karla.