Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, segir að ekki hafi komið til greina að gera starfslokasamning við Harald Johannessen, ríkislögreglustjóra, að svo stöddu. Áslaug mun setja af stað vinnu í dómsmálaráðuneytinu sem mun fara yfir þær deilur sem nú eiga sér stað innan lögreglunnar um starfsemi embættis ríkislögreglustjóra og samskipta þess við lögregluembætti landsins. Þetta kemur fram í viðtali við Áslaugu á fréttastofu RÚV.
Stjórnsýsluúttekt í farvatninu
Töluverðar deilur hafa verið innan lögreglunnar, og þá einkum í garð Ríkislögreglustjóra, að undanförnu, en í fréttum RÚV hefur meðal annars komið fram að þær tengist fatamálum lögreglu og bílamálum, ásamt öðrum málum.
Fjölmörg lögregluembætti í landinu hafa lýst yfir stuðningi við stjórn Landssambands lögreglumanna sem hafa undanfarið sett þrýsting lögreglustjóra landsins á að láta fara fram alhliða stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra. Ákveðið var að Ríkisendurskoðun ráðist í slíka úttekt í liðinni viku.
Haraldur sendi frá sér yfirlýsingu á fimmtudag þar sem sagði að ályktanir lögreglufélaga, gegn embætti ríkislögreglustjóra, væru ekki til þess fallnar að skapa frið um störf lögreglu. Þá sagði að yfirlýsingar sem „ali á ótta“ geti verið til þess fallnar að bitna á öryggi almennings og það sé ámælisvert. „Við þetta ástand verður ekki unað enda kastar það rýrð á lögregluna og störf hennar sem grefur undan því mikla trausti sem almenningur ber til lögreglunnar. Á endanum gæti þetta ástand því komið niður á öryggi almennings,“ sagði í yfirlýsingunni.
Ástandið óásættanlegt
Áslaug Arna fundaði með Haraldi í dómsmálaráðuneytinu í dag. Haraldur sagði í viðtali fyrir fundinn að hann hefði óskað eftir fundinum en hann segist óska eftir fundi með dómsmálaráðherra í hvert skipti sem nýr ráðherra tekur við embættinu.
Áslaug segir í samtali við fréttastofu RÚV að hún hafi greint Haraldi frá því að henni þætti ástandið óásættanlegt á fundinum. „Ég held að ástandið sé óásættanlegt og það gera sér allir grein fyrir því. Ég lýsti þeirri skoðun minni,“ segir Áslaug Arna.
„Ég mun setja af stað vinnu hér í ráðuneytinu sem mun fara yfir málið í samráði við helstu aðila,“ segir dómsmálaráðherra jafnframt. „Ég vona að það komi eitthvað hratt út úr því um hvernig við getum brugðist við þessari stöðu.“
Hún greindi jafnframt frá því í viðtalinu að ekki hafi komið til greina að svo stöddu að gera starfslokasamning við Harald.
Segir málefni lögreglunnar nú leyst innan lögreglunnar
Haraldur segir fundinn með Áslaugu haf verið gagnlegan og góðan í samtali við fréttastofu RÚV. Hann segir hjaðningavíg hafa átt sér stað innan lögreglunnar og að þau skili engu nema menn falli. „Ég held að við séum öll sammála um að nú verða málefni lögreglunnar leyst innan lögreglu með samtölum okkar á milli og við reynum að hætta að karpa í fjölmiðlum,“ segir Haraldur.