Bandaríkjamenn voru fjölmennastir allra ferðamanna í ágúst síðastliðnum eða 24,9 prósent brottfara. Þeim fækkaði hins vegar mest allra þjóðerna á milli ára eða um alls 35,6 prósent milli ára. Í greiningu Arion banka á stöðu ferðaþjónustunnar kemur fram að Bandaríkjamenn séu verðmætir ferðamenn þar sem þeir eyða hlutfallslega miklu þrátt fyrir að dvelja stutt en þeim hefur fækkað verulega í kjölfar falls WOW air.
Rúmlega þriðjungi færri Bandaríkjamenn en í fyrra
Brottförum Bandaríkjamanna fækkaði um 35,5 prósent í síðasta mánuði á milli ára eða tæplega 35 þúsund færri brottfarir en í fyrra, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia.
Ef tímabilið janúar til ágúst er skoðað þá hefur brottförum bandaríska ferðamanna fækkað um 30,4 prósent á milli ára eða alls 147 þúsund færri brottferðir Bandaríkjamanna en á sama tímabili í fyrra.
Samkvæmt grófum útreikningum Arion banka þá flutti WOW air um 40 prósent þeirra ferðamanna sem sóttu landið heim á síðasta ári frá Norður-Ameríku. Mikil fækkun í komum þeirra síðan í mars kemur þar af leiðandi ekki á óvart.
Neysluhegðun bandarískra ferðamanna breyst
Í nýrri ferðaþjónustuúttekt Arion banka kemur fram að Bandaríkjamenn sem komu með WOW air á síðasta ári dvöldu ívið skemur en aðrir, gistu oftar í íbúðum og á hostelum og eyddu heldur lægri fjárhæðum en þeir sem komu með öðrum flugfélögum. Samkvæmt Arion banka eru þeir þó verðmætir þar sem þeir eyða hlutfallslega miklu þrátt fyrir að dvelja stutt.
Frá falli WOW air í mars hafa tveir af hverjum þremur ferðamönnum komið til landsins með Icelandair en þegar WOW air var sem stærst var hlutdeild Icelandair komin niður í um 40 til 50 prósent.
Samkvæmt úttekt Arion banka hefur á síðustu misserum orðið breyting í farþegasamsetningu Icelandair sem hefur meðal annars orðið til þess neysluhegðun þeirra bandarísku ferðamanna sem koma til landsins hefur tekið stakkaskiptum.
Þeir dvelja nú mun lengur á landinu og þá sérstaklega á hótelum, auk þess sem þeir eyða töluvert meiri peningum. Frá apríl til júní eyddu Bandaríkjamenn langstærstum hluti af heildarútgjöldum erlendra ferðamanna eða alls 28,9 prósent og voru útgjaldahæsta þjóðin. Alls eyddu bandarískir ferðamenn 24.618 milljónum á þessu tímabili.
Nýtt flugfélag mun skipta sköpum
Grunnspá Arion banka um ferðaþjónustuna hér á landi á næsta ári gerir ráð fyrir að ferðamönnum muni fjölga um 2 prósent á árinu 2020. Þeir telja að kyrrsetning MAX flugvélanna muni draga þann dilk á eftir sér að umsvif Icelandair verða svipuð á næsta ári og á þessu en félagið hafði ætlað sér að hafa fjórtán Boeing 737 Max vélar í rekstri sumarið 2020. Þeir telja að þróun ferðamannastraumsins til landsins muni ráðast að miklu leyti af því hvort að stofnað verði nýtt íslenskt millilandaflugfélag.
Þann 6.september síðastliðinn tilkynnti hin bandaríska Michele Roosevelt Edwards, stærsti hluthafi USAerospace Associates LLC, að WOW air muni hefja lágfargjaldaflugrekstur til Bandaríkjanna og Evrópu í næsta mánuði. USAaerospace Associates LLC hefur samið um kaup á eignum úr þrotabúi WOW air og samkvæmt Edwards er fyrsta flugið áformað milli Dulles flugvallar í Washington í Bandaríkjunum og Keflavíkurflugvallar í október.
Í greiningu Arion banka segir að ef taki WOW air 2.0 til starfa gera áætlanir forsvarsmanna félagsins ráð fyrir að stærð félagsins árið 2020 verði sambærileg stærð WOW air árið 2014. Árið 2014 var WOW air með fjórar vélar í rekstri þar sem það flutti um hálfa milljón farþega í leiðakerfi sínu.
Fjöldi bandarískra ferðamanna sem koma hingað til landsins á næsta ári mun því að miklu leyti ráðast af því hvort að flugfélag tekst hér á loft.