Eyrún Eyþórsdóttir, lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, segir í Facebook-færslu að Útvarp saga hafi vegið að starfi sínu innan lögreglunnar og Háskólans á Akureyri með mjög ómaklegum hætti.
Þá segir hún umræðu á Útvarpi Sögu um hana í tengslum við spillingu innan lögreglunnar vera afskaplega aumkunarverða. Töluverðar deilur hafa verið innan lögreglunnar, og þá einkum í garð ríkislögreglustjóra, Haralds Johannessen, en meðal annars hefur komið fram að þær tengist fatamálum lögreglu og bílamálum, ásamt öðrum málum.
Í þætti á Útvarpi Sögu sem útvarpaður var í byrjun síðustu viku gerðu Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson spillingu innan lögreglunnar að umtalsefni. Á vefsíðu stöðvarinnar segir að í þættinum hafi verið nefnt dæmi „þar sem Eyrún Eyþórsdóttir sem á þeim tíma gengdi stöðu varaþingmanns Vinstri grænna var ráðin án auglýsingar inn í svokallaða hatursglæpadeild lögreglunnar þar sem henni var ætlað að rannsaka hatursglæpi, en eins og flestum er kunnugt var hennar fyrsta verk að ráðast gegn Útvarpi Sögu á þeim vettvangi og misnotaði aðstöðu sína innan lögreglunnar í pólitískum tilgangi.“
Arnþrúður sagði meðal annars að Eyrún hefði ekki einu sinni nokkra einustu reynslu af rannsókn sakamála, hún hefði verið send þarna beint inn af Vinstri grænum. Svo væri hún nú komin í Háskólann á Akureyri þar sem hún þættist vera sérfræðingur í einhverjum hatursglæpafræðum sem aðjúnkt þar hún kennir „þessi svokölluðu hatursglæpafræði.“
„Ég spyr hvar lærði hún það eignlega? Fólk verður að vita að það er enginn lögregluskóli í landinu, ég hef fulla samúð með þeim sem ætluðu sér inn í lögregluna á þeim forsendum að um alvöru lögreglu væri að ræða en ekki þetta útþynnta starf sem verið er að bjóða þarna upp á, það er kominn tími á að það sé sagt frá þessum aðilum og hverjir þeir eru,“ sagði Arnþrúður í þættinum.