Íslandsdeild Amnesty International veitti fjórum samtökum, Landssamtökum íslenskra stúdenta, Stúdentaráði Háskóla Íslands, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema og Ungum umhverfissinnum, sem staðið hafa að skipulagningu loftslagsverkafallanna á Íslandi viðurkenningu fyrir störf í þágu loftslagsmála í gær. Greta Thunberg hlaut æðstu viðurkenningu Amnesty International samtakanna í gær og var valinn samviskusendiherra samtakanna í ár.
Greta valin samviskusendiherra Amnesty
Hreyfingin skólaverkfall fyrir loftslagið, Fridays for Future, hófst með hinni 16 ára gömlu Gretu Thunberg frá Svíþjóð sem ákvað í ágúst 2018 að hætta að mæta í skólann á föstudögum og þess í stað að mótmæla fyrir utan sænska þinghúsið þar til þingið gripi til aðgerða til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamkomulagið. Mótmælin hafa vakið gríðarlega athygli og hefur Greta meðal annars verið tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels.
Í gær, þann 16. September, hlaut Greta æðstu viðurkenningu Amnesty International þegar hún var valin samviskusendiherra samtakanna árið 2019 fyrir baráttu sína gegn loftslagsbreytingum.
Heiðursverðlaunin voru fyrst veitt árið 2002 til að heiðra einstaklinga og hópa sem hafa stuðlað að mannréttindum með því að fylgja samvisku sinni. Á meðal fyrri heiðurshafa eru Nelson Mandela, Malala Yousafzai, Alicia Keys og Colin Kaepernick.
„Þessi verðlaun eru ekki mín heldur okkar allra. Það er magnað að verða vitni að þeirri viðurkenningu sem við höfum fengið og finna að við erum að hafa áhrif á það sem við erum að berjast fyrir,.“ sagði Greta þegar hún tók á móti verðlaununum.
Unga kynslóðin mun vekja pólitíkusana upp úr sameiginlegum doða
Frá því í febrúar á þessu ári hafa íslenskir nemendur einnig tekið þátt í skólaverkfallinu. Krakkar á öllum skólastigum hafa safnast saman á Austurvelli í hádeginu á föstudögum og krafist þess að íslensk stjórnvöld bregðist við neyðarástandi í loftslagsmálum.
Þau fjögur samtök sem hafa staðið að skipuleggingu verkfallanna hlutu viðurkenningu Íslandsdeilar Amnesty International í gær fyrir forystu hérlendis í baráttunni gegn loftlagsbreytingum. Það eru Landssamtök íslenskra stúdenta, Stúdentaráð Háskóla Íslands, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Ungir umhverfissinnar.
„Mér sýnist að það sé unga kynslóðin sem með forystu sinni og áræðni muni vekja pólitíkusa upp úr sameiginlegum doða. En já, það þarf byltingu í hvaða ákvarðanir eru teknar og hvaða lausnir eru fundnar. Og mér sýnist reyndar svo að byltingin á skilningi á hættunni sem fylgir loftslagsbreytingum sé hafin hjá ungu fólki víða um heim. Með allt þetta flotta unga fólk sem hefur leitt loftslagsverkföllin hér á landi held ég að við þurfum ekki að óttast hvaða ákvarðanir verða teknar í framtíðinni þegar það hefur tekið við völdum, en það þarf að taka réttar ákvarðanir núna fyrir framtíðina,“ segir Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdarstjóri Íslandsdeildar Amnesty International.
Kalla eftir að allir kynslóðir mæti og mótmæli
Á föstudaginn næsta hefst allsherjarverkfallsvika sem stendur til 27. september. Klukkan 17:00 á föstudaginn verður stór ganga allra kynslóða frá Hallgrímskirkju á Austurvöll þar sem fundur verður haldinn og lögð verður fram áskorun til stjórnvalda og undirskriftarsöfnun vegna hennar sett í loftið. Mótmælt verður síðan í hádeginu á hverjum degi þessa vikuna.
„Ungmennasamtökin sem hafa skipulagt verkföll fyrir loftslagið á Austurvelli undanfarið hálft ár skora nú á foreldra, ömmur og afa, frændur og frænkur að fylkja liði með börnum sínum og mæta með þeim á Austurvöll föstudaginn 20.september.“