Fimm þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að ríkisstjórnin hrindi í framkvæmd aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um nýtingu auðlinda á landi.
Þar á meðal vilja þingmennirnir að jarðakaup verði gerð leyfisskyld hér á landi og að lögfestar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum og að takmarkaðar verði fjöldi jarðeigna í eigu sama aðila. Tillagan er á dagskrá Alþingis í dag, 19. september.
Breiður pólitískur vilji til að takmarka jarðakaup
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði í júlí síðastliðnum að hann vonast til þess að frumvarp um jarðakaup útlendinga hér á landi yrði tilbúið snemma í haust. Hann sagði að þróun í jarðakaupum útlendinga hér á landi á síðustu árum væri alveg óviðunandi og það væri hans skoðun að ganga eins langt og hægt er í nýju frumvarpi.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur jafnframt sagt að það sé breiður pólitískur vilji til að takmarka jarðakaup auðmanna hér á landi. Að hennar mati er það skýrt að ekki eigi að líta á land eins og hverja aðra vöru eða þjónustu.
Takmörkun á jarðakaupum eitt af forgangsmálum Framsóknar
Í fréttatilkynningu frá þingflokki Framsóknar segir að eitt af forgangsmálum þingflokksins á þessu þingi sé fyrrnefnd þingsályktunartillaga um aðgerðaáætlun í jarðamálum. Líneik Anna Sævarsdóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar og meðflutningsmenn eru Halla Signý Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Willum Þór Þórsson og Þórarinn Ingi Pétursson.
Í ályktuninni er lagt til að ríkisstjórnin hrindi í framkvæmd aðgerðaráætlun í sjö liðum, til að styrkja lagaumgjörð og reglur um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi.
„Markmiðið er að tryggja eignarhald landsmanna á jörðum á Íslandi og skapa þannig tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli og fjölbreyttrar sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu í landinu. Tillagan fellur vel að markmiði ríkisstjórnarinnar um að setja skilyrði um kaup á landi,“ segir í fréttatilkynningunni.
Sami aðili geti ekki átt meira en eina jörð án reglulegrar búsetu
Í greinargerð tillögunnar segir að gildandi lagaumhverfi um jarðakaup leiði af sér að rúmlega 500 milljón manns geti keypt land og aðrar fasteignir hér á landi með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar. Flutningsmenn tillögunnar telja því brýnt að settar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi enda hafi ásókn fólks sem ekki er búsett á Íslandi eftir eignarhaldi á jörðum aukist á síðustu árum. Þá séu dæmi um að sami aðili eigi fjölda jarða og fyrirsvar jarða sé óþekkt og óljóst.
Því telja þingmenn framsóknarflokksins rétt að jarðakaup verði gerð leyfisskyld með að fyrir augum að trygga byggð í dreifbýli og halda jörðum.
Auk þess telja þingmenn Framsóknarflokksins að gerð ætti að vera krafa um að kaupandi lands búi á Íslandi, hafi búið þar í að minnsta kosti fimm ár eða hafi starfsemi í landinu. Þá þurfi tilgangur jarðakaupanna einnig að vera skýr, til dæmis vegna landbúnaðar, menningarverðmæta og náttúruverndar.
Jafnframt telja þingmennirnir að meginreglan ætti að vera að sú að sami aðili geti ekki átt meira en eina jörð án reglulegrar búsetu. Aftur á móti geti aðili sem stundar landbúnað átt fleiri jarðir til þess að standa undir búrekstri eða annarri landfrekri starfsemi sem hann stundar á aðliggjandi jörðum eða nágrannajörðum.
Hér má lesa tillöguna í heild sinni.