Þrír af hverjum tíu nemendum á framhaldsskólastigi voru í starfsnámi haustið 2018 en 69,3 prósent nemenda stunduðu nám á bóknámsbrautum. Til samanburðar þá stunda um 50 prósenta nemenda starfsnám á hinum Norðurlöndunum. Þá jókst bilið á milli kynjanna á milli ára og var hlutfall stráka í starfsnámi mun hærra en stelpna. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, segir að það þurfi samstillt þjóðarátak til að fjölga starfsnámsnemum.
Aðgerðir stjórnvalda ekki skilað árangri
Í nýjum tölum Hagstofu Íslands má sjá að rúmlega þrír af hverjum tíu nemendum á framhaldsskólastigi voru í starfsnámi haustið 2018 sem er svipaður fjöldi og árið áður. Undir starfsnám flokkast allar iðngreinar, listnám á framhaldsskólastigi og önnur starfsmenntun þar á meðal sjúkraliðanám og garðyrkjunám á framhaldsskólastigi.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá apríl 2017 um starfsmenntun segir að þrátt fyrir árlöng fyrirheit stjórnvalda um að efla starfsnám á framhaldsskólastigi hafi aðgerðir stjórnvalda ekki skilað þeim árangri sem stefnt var að þegar lög nr. 92/2008 um framhaldsskóla voru samþykkt.
Með þeim átti meðal annars að efla verknám og ná fram sterkara samstarfi skóla, vinnustaða og atvinnulífsins í heild. Lögin áttu að verða starfsréttindanámi til framdráttar og opna skólum leið til að efla starfsnám og nám tengt þjónustugreinum. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er að það hafi ekki gengið eftir.
Bilið á milli kynjanna jókst á milli ára
Árið 2017 var átakinu #kvennastarf hleypt af stökkunum af Samtökum iðnaðarins og öllum iðn- og verkgreinaskólar landsins. Átakinu var ætlað að útrýma úreltum staðalímyndum um svokölluð karla- og kvennastörf og vekja athygli á þeim konum sem erustarfandi í hinu ýmsum karlægum starfsgreinum. Markmið átaksins var einnig að fjölga konum í iðn- og verkgreinum.
„Augljóst er að ef fleiri stelpur sjá tækifæri í starfsmenntun verður auðveldara að fjölga nemendum í iðn- og verkmenntagreinum og fleira fagmenntað fólk verður til fyrir íslenskt atvinnulíf,“ segir á heimasíðu átaksins.
Bilið á milli kynjanna í starfsnámi jókst hins vegar á milli ársins 2017 og 2018 og voru karlar 39,3 í starfsnámi haustið 2018 en aðeins 21,5 prósent kvenna.
Helmingur nemenda stundar starfsnám á hinum Norðurlöndunum
Á hinum Norðurlöndunum leggja um 50 prósent nemenda stund á starfsnám á framhaldsskólastigi samanborið við um 30 prósenta nemenda hér á landi. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, vakti athygli miklum vanda starfsnáms hér á landi í erindi sínu á málþingi í Háskólanum á Akureyri í gær.
„Við hljótum að spyrja okkur, hvað er að á Íslandi þegar hugað er að þessum samanburði? Erfitt er að kenna áhugaleysi nemenda um en í nýlegri könnun kemur fram að um helmingur nýnema í framhaldsskólum hefur meiri áhuga á verklegum fögum en bóklegum. Aðeins um 15% nemenda grunnskólanemenda völdu þó starfsnámið í framhaldsskóla nú vorið 2019. Þetta þýðir að um 35% eða um 1.400 umsækjendur fundu sig knúna til að velja bóknám í stað starfsnámsins, gegn eigin sannfæringu. Þetta er sorgleg staða,“ segir Guðrún.
Hún segir jafnframt að fyrstu og stærstu hindranirnar séu rótgróið samfélagsviðhorf og sleggjudómar sem finnist til að mynda hjá vinum, kennurum og námsráðgjöfum. En einnig væru kerfisbrestir í grunnskóla- og framhaldsskólakerfinu sem hindra nemendur.
Guðrún segir að það sé stöðugt verkefni og áskorun hjá Samtökum iðnaðarins að fjölga starfsnámsnemum. „Við erum með þessa vinnu í sífelldri endurskoðun. Ég hef þó oft sagt að okkar átak eitt og sér dugi ekki til því vandinn er djúpstæður. Við þurfum samstillt þjóðarátak til að lyfta þessu grettistaki í eitt skipti fyrir öll. Slíkt átak þarf að eiga sér stað í samvinnu skólastofnana, forsvarsmanna atvinnulífs og stjórnvalda. Samtök iðnaðarins eru tilbúin til verksins.“