Átta af níu lögreglustjórum í landinu vantreysta Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra og vilja hann burt úr embætti, en kornið sem fyllti mælinn var viðtal sem Haraldur veitti Morgunblaðinu, þar sem hann sagði óánægju innan lögreglunnar meðal annars mega rekja til þess að hann væri að taka á spillingu innan lögreglunnar.
Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, en Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, sagði í viðtali við Stöð 2 að hann sæi ekki hvernig Haraldur gæti setið áfram sem ríkislögreglustjóri í ljósi almenns vantrausts í garð hans og embættisins.
Eini lögreglustjórinn sem ekki tók þátt í yfirlýsingunni var Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélagsins, sagði í viðtali við Vísi í dag að innan sérsveitarinnar væri einnig megn óánægja með Harald Johannessen sem ríkislögreglustjora.
Haraldur sagði í viðtali við Morgunblaðið á dögunum að það væri verið að reyna að hrekja hann úr embætti með því að dreifa vísvitandi rangfærslum og rógburði um hann.
Þeir sem séu að gera það séu lögreglumenn sem telji sig eiga harma að hefna gegn honum, meðal annars vegna þess að hann hafi gripið inn í vegna starfshátta eða framkomu þeirra eða vegna þess að þeir hafi ekki fengið stöður sem þeir sóttust eftir.
Ef til starfsloka hans komi kalli það á enn ítarlegri umfjöllun af hans hálfu um valdabaráttuna bak við tjöldin.
Þá nefndi hann einnig í viðtalinu að embætti ríkislögreglustjóra hefði beitt sér gegn spillingu, og það hefði valdið óánægju hjá þeim sem henni tengdust.
Haraldur sagði meðal annars í viðtalinu að „svívirðilegum aðferðum [sé beitt] í valdatafli, hagsmunagæslu og pólitík“ og að of stór hluta af fjármunum til lögreglunnar á Íslandi renna í „hátimbraða yfirmannabyggingu“. Því þurfi að ráðast í sameiningu lögregluembætta.
Vantrausti lögreglustjóra hefur nú verið komið inn á borð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, og þá hefur Ríkisendurskoðun boða stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra. Eitt af því sem hefur valdið óánægju hjá lögregluembættum er hvernig staðið hefur verið að fatamálum lögreglu og einnig bílamálum. Illa hafi gengi að endurnýja þessi mál og aðstaðan sé óboðleg, að mati lögreglustjóra.