Íslensk heimili hafa lítið nýtt sér frelsi í sölu raforku til að lækka hjá sér raforkukostnað en talið er að það sé vegna þess hve lítill kostnaðurinn er við raforkukaup. Verkfræðistofan EFLA telur hins vegar að mikilvægt sé að stjórnvöld hvetji heimilisnotendur til að vera virk á raforkumarkaði til að veita sölufyrirtækjum verðaðhald.
Í drögum að nýrri reglugerð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um raforkuviðskipti sem birt hefur verið til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda er meðal annars nánar kveðið á um rétt neytenda til að skipta um raforkusala.
Aukin neytendavernd á raforkumarkaði
Í reglugerðardrögunum segir að markmið breyttrar reglugerðar sé að efla neytendavernd á sviði raforkumála en breytingarnar eru í samræmi við auknar áherslur á neytendavernd í þriðju raforkutilskipun Evrópusambandsins.
Meðal þess sem tekið er fyrir í reglugerðinni er tryggður réttur neytenda til að velja sér raforkusala á hverjum tíma, ásamt breytingum sem auðvelda notendaskipti með rafrænum hætti og stytta fresti þegar kemur að rétti notanda til að segja upp sölusamningi.
Reglugerðin er í samræmi við niðurstöður nýlegrar skýrslu frá verkfræðistofunni EFLU, um raforkuverð og þróun samkeppni á raforkumarkaði. Þar kemur meðal annars fram að ein leið til að skoða hve virkur markaður er með raforku sé að horfa á fjölda söluaðilaskipta en samkvæmt skýrslunni er tiltölulega lítið um söluaðilaskipti hér á landi, sérstaklega hvað varðar heimilisnotendur.
Virkni á raforkumarkaði veitir sölufyrirtækjum verðaðhald
Á árinu 2017 voru söluaðilaskiptin hjá heimilum um 370 en heildarfjöldi íbúða á landinu er um 140 þúsund. Lítið er því um að heimili færi sig á milli sölufyrirtækja raforku en samkvæmt EFLU er það vegna þess að raforkunotkun heimila er lítil eða að meðaltali um 4.500 kWh/ári og árleg orkukaup því á bilinu 33 til 36 þúsund krónur.
Þá kemur fram í skýrslunni að sparnaður við söluaðilaskipti í dag eru að hámarki um þrjú þúsund krónur á ári og ávinningurinn af skiptum því fremur lítill. EFLA telur hins vegar að mikilvægt sé að hvetja heimilisnotendur raforku til að vera virkir á raforkumarkaði þar sem það auki samkeppni og veiti sölufyrirtækjum verðaðhald.
Reikna með aukinni raforkunotkun á næstu tíu árum
Í reglugerðardrögunum er einnig lagðar auknar skyldur um neytendavernd á sölufyrirtæki og dreifiveitur. Þeim er skylt að upplýsa neytendur um rétt sinn, leiðbeina þeim með aðgengilegum og sýnilegum hætti, og gæta jafnræðis í hvívetna þannig að ekki sé til dæmis vakin athygli notenda á einu sölufyrirtæki umfram annað.
Að sama skapi er með breytingum á reglugerðinni liðkað fyrir aðkomu nýrra aðila á smásölumarkað raforku en samkvæmt ráðuneytinu er það mikilvægur liður í því að efla samkeppni á raforkumarkaði með hagsmuni neytenda að leiðarljósi.
Jafnframt eru viðskipti með hleðslustöðvar raforku gerð auðveldari í nýju reglugerðinni en samkvæmt nýrri raforkuspá Orkustofnunar fyrir árin 2019 til 2050 hafa orkuskipti í samgöngum gengið heldur hraðar fyrir sig að undanförnu en gert var ráð fyrir og því reiknar stofnunin með aukinni raforkunotkun heimila vegna rafmagnsbíla á tímabilinu 2020 til 2030.
Í spá Orkustofnunar er gert ráð fyrir aukningu í raforkunotkun heimilanna um 130 GWH við lok spátímabilsins og að raforkunotkun í samgöngum verði alls rúm 1 TWh árið 2050.