Með auknum komum skemmtiferðaskipa hingað til lands á undanförnum árum hefur aukin athygli beinst að þeirri miklu mengun sem skipin hafa í för með sér. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra um mengun frá skemmtiferðum skipum sem heimsækja Íslandi. Hún spyr hvort að fylgst sé með menguninni með reglubundnum mælingum og hvernig ráðherra telji að bregðast skuli við menguninni.
Eitt skemmtiferðaskip mengi á borð við þrefaldan bílaflota Íslands
Á síðustu árum hefur verið vakin athygli á þeirri miklu mengun sem fylgir skemmtiferðaskipum. Skemmtiferðaskip í eigu eins fyrirtækis, Carnival Corporation, losaði til að mynda um tíu sinnum meira af brennisteinsoxíð (SOx) en allar rúmlega 260 milljón bifreiðar Evrópubúa árið 2017. Þetta kemur fram í niðurstöðu skýrslu stofnunar sem rannsakar umhverfisáhrif samgangna, Transport & Environment (T&E), sem birt var í júní síðastliðnum.
Þá kom þýskur vísindamaður, Axel Friedreich, til landsins fyrir tveimur árum á vegum náttúruverndarsamtaka Íslands og þýsku umhverfisverndarsamtakanna NABU og mældi sótagnir og enn smærri agnir í reyknum sem kemur frá olíubrennslu í skipunum.
Hann sagði í samtali við Ríkisútvarpið að eitt skemmtiferðaskip mengi jafnmikið og þrefaldur bílafloti Íslendinga á sólarhring. „Eitt slíkt skip gefur frá sér daglega sama magn af örögnum og ein milljón bifreiða, sem eru fleiri bílar en eru á Íslandi. Og hér voru þrjú skemmtiferðaskip á mánudeginum,“ sagði Friedrich.
Hann bendi jafnframt á að vindur stendur yfirleitt á borgina, sem þýðir að mengunin helst ekki við höfnina heldur hefur hún áhrif á alla íbúa Reykjavíkur. Auk þess fari skemmtiferðaskipin umhverfis landið en samkvæmt Friedrich þá finnast öragnir um 400 kílómetra inni í landi. Hann segir að fólk andi svo að sér þessum örsmáu ögnum úr olíunni og þær fari í lungun og þaðan út í blóðið.
Losun frá íslenska skipaflotanum aukist um 70 prósent
Hagstofa Íslands mælir ekki losun hitunargilda (CO2 ígildi) frá erlendum skemmtiferðaskipum og ferjum en Hagstofan mælir hins vegar losun frá innlendum sjósamgöngum. Sú losun hefur aukist talsvert á síðustu árum.
Frá árinu 2010 til 2017 jókst losun á CO2 ígildum frá sjósamgöngum um 253,8 kílótonn, eða um nær 70 prósent frá 2010 en Hagstofan bendir á að þetta tímabil einkenndist af miklum vexti í ferðamannaiðnaði.
Hagstofan áætlar að losun frá skipaflotanum fari fram úr losun frá landbúnaði og matvælaiðnaði fyrir árið 2018 en áætluð losun frá skipaflotanum er 672 kílótonn á síðasta ári en losun frá landbúbaði og matvælaiðnaði 650 kílótonn.