Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram nýjar reglur um auglýsingu lausra starfa á vegum ríkisins til umsagnar á samráðsgátt stjórnvalda. Í reglunum er fallið frá þeirri skyldu að stofnanir þurfi að auglýsa störf í dagblöðum en í stað þess verði laus störf aðeins auglýst á starfatorgi.is. Þá verður auglýsingatími jafnframt styttur úr tveimur vikum yfir í tíu daga.
Auglýsingaskyldan stytt um fjóra daga
Samkvæmt reglum frá 1996 er stofnunum ríkisins skylt að auglýsa öll laus störf laus til umsóknar, þó með undantekningum, á opinberum vettvangi. Fjármálaráðherra telur að í ljósi breytts umhverfis á auglýsingamarkaði sé tilefni til þess að breyta fyrirkomulagi auglýsinga lausra starfa hjá ríkinu með það fyrir augum að auka hagkvæmni í reglubundnu auglýsingaferli.
Lagt er til í drögunum að nýju reglunum að auglýsingatími verði styttur úr tveimur vikum frá birtingu í dagblaði yfir í tíu daga að lágmarki frá birtingu á sérstöku vefsvæði, starfatorg.is, fyrir laus störf hjá ríkinu. Með þessum breytingum er því fallið frá þeim skyldum sem kveðið er á um í núverandi reglum, skyldu um að auglýsa í dagblaði á landsvísu og gildistími auglýsinga verður styttur um fjóra daga. Eftir sem áður er stofnunum frjálst að auglýsa í dagblöðum sem og með öðrum hætti.
Ekki skylt að auglýsa hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu
Jafnframt leggur ráðherra til að í nýjum reglum verði ekki skylt að auglýsa hlutastörf fyrir fólk með skerta starfsorku. Ríkið hefur leitað samstarfs við Vinnumálastofnun og VIRK, starfsendurhæfingarsjóð, til að skipuleggja framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu.
Í drögunum að nýju reglunum segir að stofnunum sé ekki skylt að auglýsa störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur, störf sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingar- og foreldraorlofs, námsleyfis, leyfis til starfa á vegum alþjóðastofnana enda sé ráðningunni ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
Þá þarf ekki heldur að auglýsa störf sem auglýst hafa verið innan síðustu sex mánaða og í þeirri auglýsingu hafi þess verið getið að umsóknin geti gilt í sex mánuði frá birtingu. Störf vegna tímabundinna vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu þarf ekki heldur að auglýsa.