Jónas Jóhannsson, lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari, hefur verið skipaður í embætti héraðsdómara frá og með 13. nóvember næstkomandi. Jónas mun hafa starfsstöð við Héraðsdóm Reykjaness en sinna verkefnum fyrir alla dómstóla. Frá þessu er greint á vefStjórnarráðsins.
Dómnefnd sem skilaði umsögn um hæfni dómaraefna mat Jónas hæfastan af fjórtán umsækjendum til að hljóta embættið. Dómnefndina skipuðu Ingimundur Einarsson formaður, Kristín Benediktsdóttir, Óskar Sigurðsson, Ragnheiður Harðardóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir. Jónas var með mesta reynslu af héraðsdómarastörfum af umsækjendum, rúm sextán ár, en rúmur áratugur er síðan hann fékkst við dómsstörf.
Jónas sótti einnig um stöðu landsréttardómara sem auglýst var í maí síðastliðnum eftir að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sagði starfi sínu lausu í maí. Eiríkur Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands, var síðan skipaður dómari við Landsrétt í ágúst síðastliðnum en dómnefnd sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti mat Eirík hæfastan til að gegna embættinu.
Auglýsing