Hagfræðideild Landsbanka Íslands er bjartsýn á að áfram verði vöxtur í ferðaþjónustu hér á landi en að vöxturinn verði þó mun minni en Íslendingar hafa fengið að venjast á síðustu árum. Bankinn spáir að ferðamönnum muni fjölga um 3 prósent á næsta ári og 5 prósent árið á eftir. Þetta kemur fram í nýrri greiningu bankans á stöðu ferðaþjónustunnar hér á landi.
Bjartsýn á vöxt ferðaþjónustunnar
Í greiningunni kemur fram að margt bendi til þess að eftirspurn eftir Íslandi sem áfangastað verði sterk á næstu árum. Þar horfir hagfræðideild Landsbankans meðal annars til viðhorfskannanna þar sem fram kemur að aukin ánægja gætir á meðal ferðamanna sem koma til landsins sem og jákvætt viðhorf ferðaskipuleggjanda.
Auk þess spili lægra gengi krónunnar stóra rullu og þar með aukinn kaupmátt ferðamann. Veiking krónunnar á þessu ári hefur dregið mjög úr áhrifum gjaldþrots WOW air á tekjur íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja. Í greiningu bankans er gert ráð fyrir stöðugu gengi en þó örlítilli veikingu krónunnar á spátímabilinu sem mun styðja við áframhaldandi vöxt ferðaþjónustunnar.
Aftur á móti hafa versnandi efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum Íslands sem og stórir óvissuþættir á borð við borð við Brexit og viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína einnig áhrif. Seðlabanki Evrópu hefur nýverið lækkað spá sína um hagvöxt á evrusvæðinu fyrir næsta ár úr 1,4 prósent niður í 1,2 prósent. Líkurnar á samdrætti í Bandaríkjunum á næsta ári hafa jafnframt aukist töluvert á síðustu vikum og mánuðum.
6 prósent fjölgun í flugsætum hjá erlendum flugfélögum
Enn fremur kemur fram í greiningunni að að ráðandi þáttur í fjölgun ferðamanna á næstu árum verði framboð á flugsætum til landsins. Bankinn gerir ráð fyrir að framboð erlendra flugfélaga af flugsætum muni aukast um 6 prósent á næsta ári.
Í greiningunni segir að nú séu uppi hugmyndir um stofnun tveggja flugfélaga á grundvelli rústa WOW air. Verði af öðrum eða báðum þessum áformum sé ljóst að áhrifin verða til meiri vaxtar en að áhrifin verða þó fremur lítil , að minnsta kosti til að byrja með, enda muni þau ekki bæta miklu við það framboð sem nú þegar er á flugsætum til og frá landinu.
Þá er hins vegar einnig óvissa með framboð flugsæta Icelandair í ljósi vandræða með Boeing Max- þoturnar og hvenær þær komast í gagnið. Með fyrirvara um þessa óvissu gerir bankinn ráð fyrir að sætaframboð Icelandair aukist um 5 prósent á næsta ári.
Viðbrögð Icelandair við falli WOW air hafa dregið töluvert úr áhrifum á ferðaþjónustuna hér á landi. Á fyrstu 7 mánuðum ársins flutti Icelandair 29 prósent fleiri erlenda ferðamenn til landsins en á sama tíma í fyrra. Í greiningu bankans kemur fram að ef ekki hefði komið til neinnar fjölgunar hjá Icelandair hefði ferðamönnum til landsins fækkað um 31,4 prósent.
2,2 milljónir ferðamanna komi til landsins árið 2021
Að lokum er því spáð í greiningunni að fjöldi erlendra gesta sem sækja muni landið heim með flugi á þessu ári verði rúmlega 2 milljónir og að þeim fækki í heild sinni um tæplega 14 prósent frá fyrra ári.
Á næsta ári spáir bankinn að ferðamönnum fjölgi um 3 prósent og 5 prósent á árinu 2021 og verði þá hátt í 2,2 milljónir, litlu færri en metárið 2017.
Í árlegri ferðaþjónustuúttekt Arion banka sem birt var fyrr í september er því hins vegar spáð að komum ferðamanna til Íslands muni fjölga um 2 prósent á næsta ári, 7 prósent árið 2021 og 4 prósent á árinu 2022.