„Eftir að hafa greitt fráfarandi bankastjóra Aríon 150 milljónir í starfslokasamning sagði bankinn 100 starfsmönnum upp störfum í gær. Viðbrögð fjármálakerfisins er að fara fram á skattalækkun á bankana. Þetta eru undarleg viðbrögð svo ekki sé meira sagt, svo ekki sé talað um skort á margumtalaðri samfélagsábyrgð stórfyrirtækja.“
Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í vikulegum pistli sínum þar sem hún fer hörðum orðum um framferði Arion banka. „ Í mínum huga felst samfélagsábyrgð í því að taka ákvarðanir út frá hagsmunum heildarinnar en ekki fárra einstaklinga. Að lækka bankaskattinn þýðir minni tekjur í ríkissjóð sem þýðir minna úr að spila til að halda uppi velferð allra. Þetta gengur þvert á þá áherslu vinnandi fólks að fyrirtæki og einstaklingar sem eru aflögufærir greiði meira til samfélagsins en aðrir minna. Það er sérstaklega kaldhæðnislegt að fara fram á lækkun bankaskattsins þegar við sjáum merki þess að atvinnulausum fjölgar – meðal annars fyrir tilstilli bankanna.“
Vilja skila hluthöfum meiri arði
Arion banki sagði upp um 100 starfsmönnum í gær auk þess sem 12 var sagt upp hjá Valitor, dótturfélagi bankans. Þá sagði Íslandsbanki upp 20 manns.
Uppsagnirnar hjá Arion banka eiga að spara bankanum 1,3 milljarð króna á ársgrundvelli en um 900 milljónir króna kostar að reka þá vegna greiðslna sem fylgja því. Fyrr á þessu ári hætti Höskuldur Ólafsson störfum sem bankastjóri bankans. Að eigin sögn var hann ekki rekinn. Við starfslok voru Höskuldi greiddar 150 milljónir króna. Kostnaður við starfslok Höskuldar var því einn sjötti af þeim kostnaði sem féll til þegar um 100 manns var sagt upp í Arion banka í gær.