Tryggingafélagið Sjóvá, sem er skráð á aðalmarkað Kauphallar Íslands, hefur greint frá því að endurmat á virði GAMMA: Novus, fjárfestingasjóðs í stýringu hjá GAMMA sem á Upphaf fasteignafélag, leiði til þess að áhrif á fjárfestingastarfsemi Sjóvár á árinu verði neikvæð um 155 milljónir króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar sem birt var rétt í þessu. Ekki kemur fram í tilkynningunni hver heildareign Sjóvá er í sjóðnum. Á meðal stærstu eigenda Sjóvár eru lífeyrissjóðurinn Gildi, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Birta lífeyrissjóður auk einkafjárfesta.
Fyrr í dag sendi Kvika banki, sem keypti GAMMA síðastliðið vor, frá sér tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem greint var frá því að tveir fagfjárfestasjóðir, Novus og Anglia, hefðu verið í mun verra ásigkomulagi en gert hafði verið ráð fyrir og að skráð gengi þeirra hefði verið lækkað sem því nemur. Í tilkynningunni var hins vegar ekki greint frá því um hversu mikið sjóðirnir voru færði niður.
Í einblöðungi sem sendur var til hlutdeildarskírteinishafa í sjóðnum í dag, 30. september, sagði að staða Upphafs fasteignarfélags sé þannig að það glími „nú við lausafjárvanda en nýir stjórnendur hafa lagt fram áætlun um framtíð félagsins þar sem m.a. er unnið að viðbótarfjármögnun til að mæta lausafjárvandanum. Unnið er að útgáfu nýs forgangsskuldabréfs að fjárhæð 1 ma.kr. til að klára þær framkvæmdir sem félagið hefur með höndum til að hámarka virði eigna. Gert er ráð fyrir að niðurstöður viðræðna um frekari fjármögnun liggi fyrir um miðjan október 2019.“
Hlutdeildarskírteinishafar verða upplýstir um fjármögnun félagsins um leið og niðurstaða liggur fyrir, samkvæmt því sem fram kemur í skjalinu. „Nýtt bráðabirgðagengi sjóðsins byggir á því að áform um viðbótarfjármagn gangi eftir. Samhliða endurmati eigna og vinnu við fjármögnun hefur félagið styrkt teymið sem hefur umsjón með framkvæmdum með ráðningu byggingarverkfræðings og byggingartæknifræðings sem samtals búa yfir 40 ára reynslu úr byggingargeiranum.“