Edda Hermannsdóttir, sem verið hefur yfirmaður samskipta og greininga hjá Íslandsbanka síðastliðið ár, hefur einnig tekið við markaðsmálum málum hjá bankanum. Það gerist í kjölfar þess að Íslandsbanki hefur ákveðið að sameina markaðsmál, samskipti og greiningu undir eitt svið.
Guðmundur Arnar Guðmundsson, sem starfað hefur sem markaðsstjóri Íslandsbanka frá því í nóvember 2016, hefur látið af störfum. Í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka segir að skilin á milli samskipta og markaðsmála minnki stöðugt með tilkomu aukinnar notkunar samfélagsmiðla og stafrænnar markaðssetningar. Nýtt svið markaðsmála, samskipta og greiningar sé jafnframt í samræmi við þróun hjá bönkum á Norðurlöndunum.
Tæpt ár er síðan að tilkynnt var um að Edda, sem var ráðin samskiptastjóri Íslandsbanka árið 2015, tæki einnig við greiningu bankans. Auk greiningarvinnu heyrði framleiðsla á fræðsluefni fyrir vef og sjónvarp undir deildina.
Edda starfaði áður sem blaðamaður og var um tíma aðstoðarritstjóri Viðskiptablaðsins.
Íslandsbanki er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins.