Sá flokkur sem er mest afgerandi kjósendahópinn er Miðflokkurinn. Það ætti ekki að koma mikið á óvart, enda pólitísk stefna hans að vera oft afar afgerandi í mjög umdeildum málum. Samanlagt mældist fylgi Miðflokksins 12,5 prósent í könnunum MMR í ágúst og september. Það er meira fylgi en flokkurinn fékk í einu kosningunum sem hann hefur tekið þátt í haustið 2017.
Uppgangur Miðflokksins hafði fyrst áhrif á gengi Framsóknarflokksins, enda um klofningsbrot úr þeim flokki að ræða, en síðan þá virðist flokkurinn fyrst og síðast taka fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Miðflokkurinn virðist tala skýrt til íhaldsama og þjóðernislega arms Sjálfstæðisflokksins. Það sést vel á þeim breytingum sem orðið hafa á fylgi flokkanna tveggja í ákveðnum aldurshópum og á ákveðnum landssvæðum. Þar sem Miðflokkurinn fer upp, þar dalar Sjálfstæðisflokkurinn í takt.
Miðflokkur er flokkur karla. Rúmlega tveir af hverjum þremur kjósendum hans eru af því kyni. Kynjamunurinn er ekki jafn afgerandi hjá neinum öðrum flokki. Miðflokkurinn er líka flokkur eldri kjósenda. Í aldurshópnum 50 til 67 ára er hann t.d. næst vinsælasti flokkur landsins, á eftir Sjálfstæðisflokknum. Hjá fólki undir þrítugu mælist fylgi hans hins vegar 7,9 prósent.
Miðflokkurinn er landsbyggðarflokkur. Ef kjósendur á Suðurlandi réðu Íslandi einir væri Miðflokkurinn stærsti flokkur landsins, með fjórðung atkvæða. Á Austurlandi er hann næst stærsti flokkurinn, einungis gamli móðurflokkurinn Framsókn er þar stærri. Á höfuðborgarsvæðinu, þar sem stærstur hluti kjósenda býr, er fylgi Miðflokksins hins vegar vel undir heildarfylgi, eða 9,6 prósent.
Því minni sem æðsta menntun er, því líklegri er viðkomandi til að kjósa Miðflokkinn. Hann nýtur raunar mest stuðnings allra flokka hjá þeim kjósendahópi sem hefur mest lokið grunnskólanámi, en 17,4 prósent þeirra eru á Miðflokksvagninum. Þegar kemur að þeim sem lokið hafa háskólanámi mælist Miðflokkurinn hins vegar með minnst fylgi allra flokka sem næðu inn manni á þing miðað við núverandi stöðu í könnunum. Einungis 6,1 prósent þeirra myndu kjósa Flokkinn.
Sömu sögu er að segja af því þegar tekjur eru skoðaðar. Miðflokkurinn nýtur mest fylgis allra flokka hjá þeim sem eru með undir 400 þúsund krónur á mánuði í heimilistekjur, en 16,6 prósent þess hóps styðja flokkinn. Fylgi hans hjá öðrum tekjuhópum mælist undir heildarfylgi.
Miðflokksfólk er sá kjósendahópur sem reyndist líklegastur til að ætla ekkert að ferðast í sumarfríinu sínu samkvæmt könnunum MMR. Einungis um þriðjungur kjósenda hans notast við Spotify og þeir eru allra kjósenda ólíklegastir til að vera virkir á Instagram, þar sem sama hlutfall, þriðjungur, er með skráðan aðgang. Þá eru kjósendur Miðflokksins ólíklegastir allra kjósenda að hafa breytt hegðun sinni á einhver hátt til að lágmarka áhrfi sín á umhverfi og loftlagsmál síðastliðið ár. Það er kannski ekki skrýtið vegna þess að Miðflokksfólk hefur minnstar áhyggjur allra af hlýnun jarðar, en einungis 39 prósent þeirra hafa slíkar. Þá hafa kjósendur flokksins minnstar áhyggjur allra kjósenda af húsnæðismálum.
Miðflokksfólk er hins vegar mjög hrifið af því að neyta mjólkurvara og deila toppsætinu þar með Framsóknarkjósendum. Þeir voru líka mjög á móti þriðja orkupakkanum, mest allra á móti upptöku veggjalda og allra kjósenda líklegastir til að vera með virkt Costco aðildarkort. Þeim fannst hins vegar Áramótaskaupið minnst fyndið, og um 56 prósent kjósenda Miðflokksins taldi það hafa verið frekar eða mjög slakt.
Greiningin er hluti af stærri umfjöllun þar sem kjósendur allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi eru teknir fyrir. Hún byggir á ítarlegum gögnum frá MMR úr könnunum sem fyrirtækið hefur framkvæmt á fylgi flokka í ágúst og september 2019 auk fjölda annarra sértækra kannana um ýmis álitamál sem MMR hefur framkvæmt á þessu ári. Hægt er að lesa heildarumfjöllunina hér.