Píratar mælast með 11,8 prósent fylgi samkvæmt meðaltali síðustu tveggja kannana MMR, sem er meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum, en mun minna en þegar Píratar fóru með himinskautum í könnunum árið 2016 og mældust með á fjórða tug prósentustiga fylgi.
Píratar eru klárlega flokkur unga fólksins og sá flokkur sem nýtur mest stuðnings allra hjá kjósendum undir þrítugu, en 18 prósent landsmanna í þeim aldursflokki styðja Pírata. Stuðningurinn er líka umtalsverður hjá fólki á aldrinum 30 til 49 og þar mælast Píratar næst stærsti flokkur landsins, á eftir Sjálfstæðisflokknum. Þegar kemur að fólki yfir 50 ára þá dalar fylgið skarpt og hjá 68 ára og eldri mælist stuðningur við Pírata einungis þrjú prósent.
Stuðningurinn er líka bundinn við ákveðin landssvæði (höfuðborgarsvæðið, Suðurlandið og Vesturland/Vestfirði) sem ætla má að sé þéttbýlið á suðvesturhorni landsins að uppistöðu.
Píratar eru líklegir til að vilja ferðast í sumarfríinu sínu, 61 prósent þeirra er á Instagram og 80 prósent er með áskrift að Netflix. Þeir hafa líka mestar áhyggjur allra af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum á Íslandi (71 prósent) og til að fá sér kokteilsósu með pizzu, en tæpur þriðjungur Pírara er opinn fyrir þeim samruna.
Greiningin er hluti af stærri umfjöllun þar sem kjósendur allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi eru teknir fyrir. Hún byggir á ítarlegum gögnum frá MMR úr könnunum sem fyrirtækið hefur framkvæmt á fylgi flokka í ágúst og september 2019 auk fjölda annarra sértækra kannana um ýmis álitamál sem MMR hefur framkvæmt á þessu ári. Hægt er að lesa heildarumfjöllunina hér.