Sjálfstitlaður jafnaðarmannaflokkur Íslands er næst stærsti flokkur landsins samkvæmt flestum skoðanakönnunum. Fylgið samkvæmt síðustu tveimur könnum MMR er 15,8 prósent, sem er rétt rúmlega helmingur besta árangurs flokksins í kosningum í sögu hans, en umtalsvert betri staða en haustið 2016, þegar hann fékk rétt yfir fimm prósent atkvæða og einungis einn kjördæmakjörinn þingmann.
Konur eru líklegri til að kjósa Samfylkinguna en karlar og stuðningur við flokkinn eykst eftir því sem fólk eldist. Ef einungis 68 ára og eldri væru með kosningarétt væri Samfylkingin stærsti flokkur landsins. Í þeim aldurshópi segjast 21,8 prósent að þeir myndu kjósa Samfylkinguna. Yngri fólk er hins vegar ólíklegra til að kjósa hana og í aldurshópnum 30-49 ára, sem öllu jafna er einn fyrirferðamesti hópur samfélagsins hverju sinni, er Samfylkingin fimmti stærsti flokkurinn. Af þeim sem myndu ná inn á þing mælast einungis Viðreisn og Miðflokkurinn með minni stuðning í þeim aldurshópi.
Stuðningur við flokkinn er nokkuð dreifður um landið en þó áberandi minnstur á Vesturlandi og Vestfjörðum og mestur á Austurlandi, þar sem Samfylkingin, með 19,4 prósent stuðning, mælist stærsti flokkur landsins. Tekjur virðast ekki vera ráðandi breyta í því hvort fólk styðji Samfylkinguna eða ekki. Stuðningurinn er nokkuð jafn óháð því hvort veskið sé þungt eða létt.
Kjósendur Samfylkingarinnar eru líklegastir allra til að borða mikinn fisk og hafa umfram aðra breytt hegðun sinni á einhvern hátt til að lágmarka áhrif sín á umhverfi og loftlagsbreytingar á síðustu tólf mánuðum. Það kemur ekki mikið á óvart þegar horft er til þess að 96 prósent kjósenda flokksins hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af hlýnun jarðar.
Samfylkingarfólk er ólíklegast allra til að vera á samfélagsmiðilnum Snapchat, rúmur þriðjungur þess telur efnahagsstöðu Íslands vera slæma og það er óánægðast allra kjósenda með þá kjarasamninga sem Efling og VR gerðu við Samtök atvinnulífsins í apríl. Þá eru jafnaðarmennirnir sá hópur kjósenda sem þú getur síst búist við að fái sér kokteilsósu með pizzu en átta af hverjum tíu þeirra fannst Áramótaskaupið frekar eða mjög gott.
Greiningin er hluti af stærri umfjöllun þar sem kjósendur allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi eru teknir fyrir. Hún byggir á ítarlegum gögnum frá MMR úr könnunum sem fyrirtækið hefur framkvæmt á fylgi flokka í ágúst og september 2019 auk fjölda annarra sértækra kannana um ýmis álitamál sem MMR hefur framkvæmt á þessu ári. Hægt er að lesa heildarumfjöllunina hér.