Flokkur forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur er sá ríkisstjórnarflokkur sem goldið hefur mest fyrir hið óvenjulega ríkisstjórnarsamstarf. Samanlagt fylgi hans í ágúst og september mælist 12,2 prósent, sem þýðir að hátt í þriðjungur af fylgi flokksins er horfinn frá síðustu kosningum.
Tölur MMR sýna að konur eru mun líklegri en karlar til að kjósa Vinstri græn. Stuðningur hans er langmestur á Norðurlandi þar sem hann mælist stærstur allra flokka með 18,4 prósent stuðning á heimaslóðum fyrrverandi formannsins Steingríms J. Sigfússonar. Eina landssvæðið utan þess þar sem fylgið er í takt við heildarfylgið er á höfuðborgarsvæðinu. Annarsstaðar á landinu eru Vinstri græn með eins stafa fylgi og minnst á Austurlandi, þar sem einungis 5,9 prósent kjósenda segjast styðja flokkinn.
Þegar fyrri kannanir ársins, sem skoða sértækt annað en bara fylgi flokka, eru skoðaðar kemur í ljós að kjósendur Vinstri grænna voru líklegri en kjósendur annarra flokka að ætla að ferðast í sumarfríinu sínu, jafnt innanlands sem utan, langlíklegastir til að borða grænmetis- eða veganfæði, höfðu miklar áhyggjur af hlýnun jarðar og ansi hlynntir veggjöldum. Þeir voru hins vegar ólíklegastir til að vera með áskrift af Netflix eða virkt Costco aðildarkort og eru að uppistöðu mjög andvígir því að ferskt kjöt verði flutt til landsins frá öðrum löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Greiningin er hluti af stærri umfjöllun þar sem kjósendur allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi eru teknir fyrir. Hún byggir á ítarlegum gögnum frá MMR úr könnunum sem fyrirtækið hefur framkvæmt á fylgi flokka í ágúst og september 2019 auk fjölda annarra sértækra kannana um ýmis álitamál sem MMR hefur framkvæmt á þessu ári. Hægt er að lesa heildarumfjöllunina hér.