Ólafur Ólafsson telur að niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans 2003, þar sem hann og viðskiptafélagar hans voru sagðir hafa blekkt íslenska ríkið, fjölmiðla og almenning, hafi vegið „alvarlega að orðspori mínu og æru án þess að ég hefði nokkurt tækifæri til að koma við vörnum eða nýta þau réttindi sem við teljum sjálfsagt að fólk, sem borið er þungum sökum af hálfu stjórnvalda, njóti.“ Hann kallar vinnu nefndarinnar einnig „einhliða árás“ á sig.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hefur verið send fyrir hönd Ólafs til Kjarnans vegna kæru hans til Mannréttindadómstóls Evrópu málsins. Ólafur sendi þá kæru nokkrum mánuðum eftir að niðurstaðan var birt í skýrslu, eða í júlí 2017. Ólafur vill meina að hann hafi ekki notið réttinda sem honum séu tryggð í Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem að „umgjörð og málsmeðferð RNA hafi í raun falið í sér sakamál á hendur honum og jafngilt refsingu án þess að hann hafi notið nokkurra þeirra réttinda sem fólk sem borið er sökum á að njóta og er grundvöllur réttarríkisins.“
Ríkið, fjölmiðlar og almenningur blekktir
Niðurstaða nefndarinnar, sem skilaði skýrslu sinni í mars 2017, var að ítarleg gögn sýndu með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Búnaðarbankanum í orði kveðnu. „Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.“
Um svipað leyti voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Íslensk skattayfirvöld telja að eigendur þess félags hafi verið bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, aðaleigendur Bakkavarar og stærstu eigendur Kaupþings fyrir hrun.
Samkvæmt tilkynningu sem nefndin sendi frá sér í aðdraganda þess að skýrslan var birt sýndu gögn málsins „hvernig íslensk stjórnvöld voru blekkt og hvernig rangri mynd af viðskiptunum var haldið að fjölmiðlum og almenningi. Á hinn bóginn bendir ekkert til annars en að öðrum aðilum innan fjárfestahópsins sem keypti hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, S-hópsins svokallaða, hafi verið ókunnugt um leynisamningana og að þeir hafi staðið í þeirri trú að Hauck & Aufhäuser væri raunverulegur eigandi þess hlutar sem hann var skráður fyrir.“
Öll meint brot fyrnd
RÚV greindi fyrst frá málinu í gær, áður en að almannatenglar Ólafs sendu tilkynningu um það á aðra miðla. Í frétt ríkismiðilsins var bent á að einungis 5,4 prósent þeirra mála sem voru send eru til Mannréttindadómstóls Evrópu endi með dómi. Því liggur ekkert annað fyrir í málinu en að íslenska ríkinu verður gert að svara spurningum um hvort að um ígildi sakamálarannsóknar hafi verið að ræða.
Í umræddri rannsókn var engu máli vísað áfram til meðferðar sem sakamál þar sem málsatvik höfðu átt sér stað 11 til 15 árum áður en skýrsla nefndarinnar kom út og möguleg brot á sakamálalögum, hafi þau átt sér stað, því fyrnd.
Ólafur telur hins vegar að það felist ákveðin viðurkenning á hans sjónarmiðum í því að Mannréttindadómstóllinn taki málið upp og krefji ríkið svara um málsmeðferðina. „Í þessari einhliða árás á mig var ekkert tillit tekið til þess að ríkið tók á sínum tíma hæsta tilboði í opnu söluferli, kaupverðið var greitt að fullu og engum blekkingum var beitt, enda var tilboð S-hópsins metið hagstæðast jafnvel án aðkomu erlends banka líkt og lesa má í fundargerðum Framkvæmdanefndar um einkavæðingu.“