Ólafur telur skýrslu rannsóknarnefndar hafa verið „einhliða árás“ á sig

Ólafur Ólafsson, sem leiddi S-hópinn þegar hann keypti Búnaðarbankann, telur að vinna Rannsóknarnefndar Alþingi á kaupunum hafi vegið að orðspori hans og æru. Hann telur hana vera mannréttindabrot og kærði vinnuna til Mannréttindadómstóls.

Ólafur Ólafsson þegar hann mætti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að ræða niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar.
Ólafur Ólafsson þegar hann mætti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að ræða niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar.
Auglýsing

Ólafur Ólafsson telur að niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans 2003, þar sem hann og viðskiptafélagar hans voru sagðir hafa blekkt íslenska ríkið, fjölmiðla og almenning, hafi vegið „alvarlega að orðspori mínu og æru án þess að ég hefði nokkurt tækifæri til að koma við vörnum eða nýta þau réttindi sem við teljum sjálfsagt að fólk, sem borið er þungum sökum af hálfu stjórnvalda, njóti.“ Hann kallar vinnu nefndarinnar einnig „einhliða árás“ á sig.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hefur verið send fyrir hönd Ólafs til Kjarnans vegna kæru hans til Mannréttindadómstóls Evrópu málsins. Ólafur sendi þá kæru nokkrum mánuðum eftir að niðurstaðan var birt í skýrslu, eða í júlí 2017. Ólafur vill meina að hann hafi ekki notið réttinda sem honum séu tryggð í Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem að „umgjörð og málsmeðferð RNA hafi í raun falið í sér sakamál á hendur honum og jafngilt refsingu án þess að hann hafi notið nokkurra þeirra réttinda sem fólk sem borið er sökum á að njóta og er grundvöllur réttarríkisins.“

Ríkið, fjölmiðlar og almenningur blekktir

Niðurstaða nefndarinnar, sem skilaði skýrslu sinni í mars 2017, var að ítarleg gögn sýndu með óyggj­andi hætti að þýski bank­inn Hauck & Aufhäuser, Kaup­þing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafs­sonar fjár­festis not­uðu leyni­lega samn­inga til að fela raun­veru­legt eign­ar­hald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Bún­að­ar­bank­anum í orði kveðnu. „Í raun var eig­andi hlut­ar­ins aflands­fé­lagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jóm­frúa­eyj­um. Með fjölda leyni­legra samn­inga og milli­færslum á fjár­mun­um, m.a. frá Kaup­þingi hf. inn á banka­reikn­ing Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bank­anum tryggt skað­leysi af við­skipt­unum með hluti í Bún­að­ar­bank­an­um.“ 

Auglýsing
Auk þess sýndi skýrsla að síð­ari við­skipti á grund­velli ofan­greindra leyni­samn­inga hafi gert það að verk­um, að Welling & Partners fékk í sinn hlut rúm­lega 100 millj­ónir Banda­ríkja­dala sem voru lagðar inn á reikn­ing félags­ins hjá Hauck & Aufhäuser. Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir við­skiptin með eign­ar­hlut rík­is­ins í Bún­að­ar­bank­an­um, voru 57,5 millj­ónir Banda­ríkja­dala greiddar af banka­reikn­ingi Welling & Partners til aflands­fé­lags­ins Marine Choice Limited sem stofnað var af lög­fræði­stof­unni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla. Raun­veru­legur eig­andi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafs­son. 

Um svipað leyti voru 46,5 millj­ónir Banda­ríkja­dala greiddar af banka­reikn­ingi Welling & Partners til aflands­fé­lags­ins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Íslensk skattayfirvöld telja að eigendur þess félags hafi verið bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, aðaleigendur Bakkavarar og stærstu eigendur Kaupþings fyrir hrun. 

Samkvæmt tilkynningu sem nefndin sendi frá sér í aðdraganda þess að skýrslan var birt sýndu gögn málsins „hvernig íslensk stjórn­völd voru blekkt og hvernig rangri mynd af við­skipt­unum var haldið að fjöl­miðlum og almenn­ingi. Á hinn bóg­inn bendir ekk­ert til ann­ars en að öðrum aðilum innan fjár­festa­hóps­ins sem keypti hlut rík­is­ins í Bún­að­ar­bank­an­um, S-hóps­ins svo­kall­aða, hafi verið ókunn­ugt um leyni­samn­ing­ana og að þeir hafi staðið í þeirri trú að Hauck & Aufhäuser væri raun­veru­legur eig­andi þess hlutar sem hann var skráður fyr­ir.“

Öll meint brot fyrnd

RÚV greindi fyrst frá málinu í gær, áður en að almannatenglar Ólafs sendu tilkynningu um það á aðra miðla. Í frétt ríkismiðilsins var bent á að einungis 5,4 prósent þeirra mála sem voru send eru til Mannréttindadómstóls Evrópu endi með dómi. Því liggur ekkert annað fyrir í málinu en að íslenska ríkinu verður gert að svara spurningum um hvort að um ígildi sakamálarannsóknar hafi verið að ræða.

Auglýsing
Samkvæmt lögum er meginhlutverk rannsóknarnefnda að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum í máli. Hún má fela það verkefni að gefa álit sitt á því hvort til staðar kunni að vera lögfræðileg atriði sem gætu varpað ljósi á hvort tilefni sé til þess að þar til bær stjórnvöld kanni grundvöll ábyrgðar einstaklinga eða lögaðila. Í lögunum segir að ef vakni „grunur við rannsókn nefndarinnar um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað tilkynnir hún ríkissaksóknara það sem ákveður hvort rannsaka beri málið í samræmi við lög um meðferð sakamála.“

Í umræddri rannsókn var engu máli vísað áfram til meðferðar sem sakamál þar sem málsatvik höfðu átt sér stað 11 til 15 árum áður en skýrsla nefndarinnar kom út og möguleg brot á sakamálalögum, hafi þau átt sér stað, því fyrnd. 

Ólafur telur hins vegar að það felist ákveðin viðurkenning á hans sjónarmiðum í því að Mannréttindadómstóllinn taki málið upp og krefji ríkið svara um málsmeðferðina. „Í þessari einhliða árás á mig var ekkert tillit tekið til þess að ríkið tók á sínum tíma hæsta tilboði í opnu söluferli, kaupverðið var greitt að fullu og engum blekkingum var beitt, enda var tilboð S-hópsins metið hagstæðast jafnvel án aðkomu erlends banka líkt og lesa má í fundargerðum Framkvæmdanefndar um einkavæðingu.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent