Í dómi Landsréttar í forsjármáli, frá því í dag, segir að tölvupóstsamskipti Arnars Þórs Jónssonar dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, og Flosa Hrafns Sigurðssonar, lögmanns, séu „óvenjuleg“.
Í tölvupósti til Flosa Hrafns, sem vitnað er til í dómnum, segir Arnar Þór meðal annars að lögmenn eigi ekki að vera misnota lagaákvæði um gjafsóknarmöguleika í málum, í atvinnuskyni.
Með dómi Landsréttar var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur staðfest, en í því fallist á kröfu Barnaverndar Reykjavíkur um sviptingu forsjár yfir barni.
Í dómnum er meðal annars fjallað um tölvupóstsamskipti Arnars Þórs og Flos Hrafns, segir meðal annars orðrétt í dómnum: „Í svarpósti dómarans segir meðal annars: „ ...lögmenn geta ekki haldið því fram gagnvart gagnaðila, umbjóðendum sínum eða gagnvart dómnum að þeim leyfist að nálgast þessi mál með rörsýn. Lögmaður sem nálgast þessi mál með það eitt að leiðarljósi að ganga erinda umbjóðanda síns getur ekki haldið því fram að hann sé að vinna innan ramma siðareglna. Þvert á móti er að mínu mati augljóst að lögmönnum ber, í riti og ræðu, að gæta staðfastlega að hagsmunum þeirra barna sem í hlut eiga, ...“ Eftir nokkra umfjöllun dómarans um hlutverk lögmanna og siðareglur segir í póstinum: „Í því felst m.a. að höfða til samvisku umbjóðandans og láta svörin sem þannig fást vera leiðbeinandi um framhaldið, en ekki einungis þrönga sérhagsmuni enda á slíkt ekki við í þessum málum.“ Eftir nokkrar vangaveltur lögmanns áfrýjanda í tölvupósti til dómarans um 13 ára reynslu hans af störfum í barnaverndarmálum og því sem hann taldi vera gott orðspor sitt svo og hvernig lögmenn eigi að haga störfum sínum á grundvelli þeirra sjónarmiða sem koma fram í dóminum og fyrri tölvupósti dómarans svarar dómarinn meðal annars með þessum orðum: „Ég hygg að reyndir lögmenn sem hafa tileinkað sér góða lögmannshætti eins og það hugtak hefur lengst af verið skilið, væru ekki í neinum vafa um hvernig ætti að svara þessu. Lögbundin gjafsókn er einskis virði fyrir þann sem veit / má vita að hann er með gjörtapað mál í höndunum. Gjafsókn hefur í slíkum tilvikum vissulega virði fyrir lögmenn og þar hvílir aftur augljós skylda á lögmönnum að misnota sér ekki slík lagaákvæði í atvinnuskyni.“
Lögmennirnir töldu að með orðum sínum í tölvupóstum til lögmanns, þá mætti sjá að Arnar Þór hefði fyrirfram mótaðar skoðanir á málinu, og því ætti það að leiða til ómerkingar fyrri dóms.
Á það fellst Landsréttur ekki, en segir tölvupóstsamskiptin engu að síður orka tvímælis.
„Tölvupóstssamskipti dómarans og lögmanna eftir að héraðsdómur féll eru óvenjuleg. Að efni til fela þau fyrst og fremst í sér skoðanaskipti milli dómarans og lögmannanna um markmið með reglum barnaverndarlaga um gjafsókn, hlutverk lögmanna í barnaverndarmálum og frekari áréttingu á þeim sjónarmiðum sem fram koma í forsendum héraðsdóms. Þótt nokkuð orki tvímælis hvort orðaskipti af þessum toga milli dómara og lögmanna séu viðeigandi þykir ekki verða út úr þeim lesin sérstök óvild í garð lögmannanna og að áfrýjandi hafi þannig haft, hlutlægt séð, ástæðu til að draga í efa að dómarinn hafi ekki verið óhlutdrægur. Leiðir af þessu að hafnað er kröfu áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms á þeim grundvelli að áfrýjandi hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar eins og ráðer fyrir gert í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög 62/1994,“ segir í dómnum.