Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra,, gagnrýndi Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, fyrir lagasetningu um bann við hjónabandi samkynhneigðra sem hann stóð fyrir á meðan að Perry var ríkisstjóri í Texas-ríki, á fundi þeirra og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á fimmtudag.
Guðmundur Ingi greinir frá þessu í stöðuuppfærslu á Facebook og sagði við Perry að hann væri sjálfur samkynhneigður og stjórnvöld bæru ríka ábyrgð á lagasetningu sem þessari. „Þau gætu ekki einfaldlega skýlt sér á bak við atkvæðagreiðslur almennings um þær. Perry hefur meðal annars líkt samkynhneigð við alkóhólisma og er mótfallinn því að samkynhneigðir geti ættleitt börn.“
Perry var staddur hér á landi til að taka þátt í Arctic Circle-ráðstefnunni sem fram fór í Hörpu síðustu daga. Lítið hefur verið gefið upp um innihald fundarins en Guðmundur Ingi segir í stöðuuppfærslunni sem birtist í gærkvöldi að skilaboðin varðandi loftlagsmálin hafi verið skýr „og við lögðum t.a.m. á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu og það að Bandaríkin verði aftur með í Parísarsamkomulaginu.
Bauð sig nýverið fram til varaformanns
Guðmundur Ingi er fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar og var beðinn um að koma inn í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur eftir að náðst hafði saman um myndun hennar síðla árs 2017. Hann hefur gegnt embætti umhverfis- og auðlindaráðherra utan þings frá þeim tíma. Hann hefur aldrei verið í framboði til Alþingis eða beinn þátttakandi í flokkapólitík til þessa. Þess vegna hefur farið lítið fyrir afstöðu hans í málum sem snúa ekki beint að þeim málaflokki sem hann stýrir í opinberri umræðu.
Guðmundur Ingi tilkynnti fyrir um viku að hann hefði ákveðið að bjóða sig fram til varaformanns Vinstri grænna, og þar með hefja hefðbundna stjórnmálaþátttöku. Það gerði hann einnig í gegnum stöðuuppfærslu á Facebook þar sem sagði m.a.: „Ég vil sjá enn fleira umhverfisverndarfólk í brúnni í íslenskum stjórnmálum og hef því ákveðið að bjóða mig fram til varaformanns Vinstri grænna á landsfundi flokksins nú í október. Ég hlakka til að hlusta og heyra, móta og taka þátt í að skapa betri og lífvænlegri heim fyrir okkur öll, afkomendur okkar og aðrar lífverur á Jörðinni.“