Landsvirkjun hefur gefið út heildsöluverð fyrir árið 2020 og mun raforkuverð hækka um 2,5 prósent milli ára. Landsvirkjun hafði áður tilkynnt að raforkuverð myndi taka mið af verðlagsbreytingum en hefur nú fallið frá þeirri ákvörðun í því skyni að vera í takti við lífskjarasamningana og hefur fyrirtækið því ákveðið að draga úr verðhækkunum næsta árs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.
Viðskiptavinir Landsvirkjunar á heildsölumarkaði eru nú átta talsins en þeir selja raforkuna áfram til heimila og almennra fyrirtækja. Raforkuverð frá Landsvirkjun er að meðaltali um fjórðungur af endanlegum rafmagnsreikningi heimilanna. Við það bætist álagning sölufyrirtækja, flutningur, dreifing og virðisaukaskattur.
Samkvæmt Landsvirkjun hefur heildsöluverð frá Landsvirkjun hækkað minna en verðlag undanfarin ár. Heildsöluverð Landsvirkjunar sem hlutfall af rafmagnsreikningi heimilanna hefur lækkað úr tæpum þriðjungi í fjórðung á síðustu 10 árum, farið úr 30 prósent árið 2008 í 26 prósent árið 2018.
„Í takti við lífskjarasamningana hefur Landsvirkjun ákveðið að verð í heildsölusamningum fyrirtækisins hækki ekki umfram 2,5 prósent á árinu 2020. Það er í samræmi við stefnu fyrirtækisins sem hefur lagt áherslu á hóflegar verðhækkanir til raforkufyrirtækja sem selja rafmagn áfram til almennings undanfarin ár, ,“ segir í tilkynningunni.