Útgerðarfélag Reykjavíkur mun eiga um 52,8 prósent í Brimi þegar búið verður að ganga frá kaupum félagsins á hlut FISK Seafood, sjávarútvegsarms Kaupfélags Skagfirðinga, í sjávarútvegsfyrirtækinu fyrir tæplega átta milljarða króna. Fyrirvarar vegna kaupanna hafa enn ekki verið uppfylltir en gert er ráð fyrir því að þeir verði það þann 1. desember næstkomandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Kaup Útgerðarfélags Reykjavíkur á hlut FISK Seafood í Brim voru kunngjörð í byrjun september. FISK hafði nokkrum vikum áður keypt hlut Gildis lífeyrissjóðs í Brimi sem sjóðurinn ákvað að selja vegna óánægju með kaup Brims á nokkrum sölufélögum af Útgerðarfélagi Reykjavíkur á 4,4 milljarða króna. Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur, er forstjóri Brims. Kaupverðið sem var greitt fyrir sölufélögin var greitt með hlutafjáraukningu í Brimi, sem nú hefur orðið að veruleika.
Eftir hlutafjáraukninguna er hlutur Útgerðarfélags Reykjavíkur og tengdra aðila í þessu eina skráða sjávarútvegsfyrirtæki landsins orðin 42,71 prósent.
Nái Útgerðarfélag Reykjavíkur að uppfylla fyrirvarana sem settir voru fyrir kaupum þess á hlut FISK Seafood í Brimi fyrir 1. desember næstkomandi mun eignarhlutur þess í Brimi fara í 52,76 prósent. Í tilkynningu til kauphallar segir þó að Útgerðarfélag Reykjavíkur stefni „að því að hlutur þess af heildarhlutafé Brim hf. verði undir helmingi hlutafjár til framtíðar.“
Gildi fór vegna endurtekinna viðskipta við stærsta eigandann
Hinn 18. ágúst síðastliðinn var frá því greint að FISK Seafood hefði gert skipti á hlutabréfum við Gildi lífeyrissjóð. FISK eignaðist hlutabréf Gildis í Brimi og Gildi eignaðist meðal annars hlutabréf í Högum í staðinn.
FISK var hins vegar ekki lengi hluthafi í Brimi. Hinn 9. september var tilkynnt um kaup Útgerðarfélags Reykjavíkur á hlut FISK í Brimi, sem var 10,18 prósent af heildarhlutafé. Kaupverðið var á genginu 40,4 og nam um átta milljörðum króna. FISK hafði eignast bréfin á genginu 36, um þremur vikum fyrr, og því var hagnaðurinn umtalsverður af þessum viðskiptum, eða um 1,4 milljarðar króna.
Í grein á vefnum Feyki, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, sem birtist skömmu síðar var fjallað um viðskiptin. Þar kom fram fram að Útgerðarfélag Reykjavíkur hefði greitt 4,6 milljarða króna af kaupverðinu með aflaheimildum í þorski, ýsu, ufsa og steinbíti.
Gengi bréfa í Brimi er nú 38,25 krónur á hlut.