Lögmannsstofan Mossack Fonseca hefur stefnt Netflix vegna kvikmyndar streymisveitunnar um Panamaskjölin. Í málsókninni mótmæla lögmennirnir Jürgen Mossack og Ramón Fonseca því að myndin sýni þá sem „miskunnarlausa, óskynsama og siðlausa lögfræðinga“ sem stunduðu peningaþvætti, skattsvik og önnur glæpsamleg athæfi til hagsbóta fyrir auðmenn. Frá þessu er greint á vef New York Times.
Stærsti gagnaleki sögunnar
Mossack Fonseca komst í heimsfréttirnar fyrir þremur árum þegar Panamaskjölin voru birt. Panamaskjölin eru stærsti gagnaleki sögunnar en í þeim mátti finna upplýsingar úr gagnasafni lögfræðistofunnar Mossack Fonseca. Upplýsingar um 210.000 aflandsfélög sem stofnuð voru í 21 landi víðsvegar um heiminn. Meðal þeirra sem keyptu þjónustu stofunnar var fólk úr viðskiptalífinu á Íslandi auk stjórnmálaleiðtoga víðsvegar um heiminn. Þeirra á meðal voru fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Kvikmyndin ber heitið The Laundromat eða þvottahúsið. Leikstjóri myndarinnar er Steven Soderbergh og með aðalhlutverk fara Meryl Streep, Antonio Banderas og Gary Oldman. Kvikmyndin er byggð á bók Jake Bernstein: Secrecy World: Inside the Panama Papers Investigation of Illicit Money Networks and the Global Elite sem gefin var út fyrir tveimur árum. Í bókinni fer höfundur ofan í saumana á hvernig Mossack Fonseca aðstoðaði fjölda einstaklinga við að fela auð sinn og komast hjá skattgreiðslum.
Myndin hefur nú þegar við sýnd á kvikmyndahátíðum í Feneyjum og Toronto sem og ákveðnum kvikmyndahúsum en á morgun, þann 18. október, fer hún í dreifingu á streymisveitunni Netflix.
Vilja að dreifing kvikmyndarinnar á Netflix verði stöðvuð
Mossack Fonseca hefur hins vegar höfðað mál gegn Netflix vegna kvikmyndarinnar á þeim grundvelli að þeim þyki myndin draga upp ranga mynd af félögunum Mossack og Fonseca. Lögmannsstofan kærir streymisveituna vegna meiðyrða, innrás á friðhelgi einkalífs og vörumerkjabrota.
Lögmannsstofan krefst meðal annars þess að dómari fyrirskipi Netflix að stöðva dreifingu myndarinnar á streymisveitu þeirra. Lögmannsstofan heldur því fram í málsókn sinni að víðtæk dreifing Netflix á kvikmyndinni gæti leitt til frekari rannsókna í Panama og gæti haft áhrif á rétt Mossack og Fonseca til réttlátrar málsmeðferðar í Bandaríkjunum.
Fyrirtækið, sem hafði tugi skrifstofu um allan heim, hefur verið rannsakað af löggæsluyfirvöldum í nokkrum löndum vegna ásakana um tengsl við peningaþvætti.
Netflix neitaði að tjá sig um málið við New York Times en fyrirtækið hefur lagt fram beiðni um að alríkisdómstólinn í Connecticut vísi málinu frá á grundvelli þess að hvorki Mossack Fonseca né Netflix hafi höfuðstöðvar í Connecticut né nokkurskonar tengsl þar.