Atvinnuleysi innan Evrópusambandsríkjanna (ESB) mældist 6,2 prósent í ágúst síðastliðnum. Það hefur ekki mælst minna frá því að mælingar hófust árið 2000. Í sama mánuði árið áður hafði atvinnuleysið mælst 6,7 prósent. Þetta kemur fram í nýlegum tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Alls lækkaði atvinnuleysi í 24 af ríkjunum 28 sem tilheyra sambandinu. Lægst var atvinnuleysið í Tékklandi, þar sem það mældist einungis tvö prósent. Atvinnuleysið hélst eins í Lúxemborg en jókst lítillega í Danmörku (í 5 prósent) og umtalsvert í Litháen (í 6,6 prósent) og Svíþjóð (í 7,1 prósent).
Til samanburðar var atvinnuleysi í Bandaríkjunum í ágúst 3,7 prósent og á Íslandi mældist það 3,4 prósent.
Þegar litið er til þeirra landa sem nota evruna sem gjaldmiðil mælist atvinnuleysið aðeins hærra en í sambandinu öllu, eða 7,4 prósent. Það er samt sem áður minnsta atvinnuleysi sem hefur mælst hjá evruríkjunum síðan í maí 2008. Innan þeirra voru 12,1 milljónir manna atvinnulausir í ágúst 2019 sem eru 960 þúsund færri en í sama mánuði í fyrra.