Skoðanir kaþólsku kirkjunni hljóta ekki mikinn hljómgrunn hjá stjórnvöldum hér á landi og myndi kirkjan vilja hafa meiri áhrif á íslensk stjórnmál. „Sjónarmið okkar, sérstaklega hvað varðar mál þjóðfélagsins eru ekki endilega trúmál heldur bara almenn þjóðfélagsmál sem skipta kirkjuna máli. Því við viljum vernda lífið og standa fyrir mannréttindum. Þá skiptir máli að röddin okkar heyrist,“ segir Séra Jakob Rolland, prestur kaþólsku kirkjunnar í Reykjavík, í samtali við Kjarnann.
Afstaða kirkjunnar gagnvart hjónaböndum samkynja para ekki breyst
Íhaldssöm og rótgróin viðhorf kaþólsku kirkjunnar gagnvart samkynhneigðum og sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir eigin líkama eru vel þekkt og er íslenskur angi kaþólsku kirkjunnar engin undantekning. Kaþólska kirkjan mótmælti bæði frumvarpi stjórnvalda um hjónabönd samkynja para árið 2010 og þungunarrofsfrumvarpi stjórnvalda í vor.
Aðspurður hvort að afstaða kirkjunnar gagnvart hjónaböndum samkynja para hafi breyst frá því að lögin voru samþykkt svarar Jakob að svo væri ekki. Hann segir að í rauninni skipti íslensk lög engu máli þegar kemur að hjónabandi samkynja para þar sem trú kaþólsku kirkjunnar segir þeim að þannig hjónaband sé einfaldlega ekki mögulegt.
„Ef tvær konur koma til okkar og vilja giftast þá segi ég: Því miður það gengur ekki hjá okkur. Ef þær segja þá ætlum við að kæra ykkur, þá segi ég: Gerðu það. Ef ég fer fangelsi, þá fer ég í fangelsi en það breytir engu um mína afstöðu,“ segir Jakob.
Fá lítinn hljómgrunn hjá íslenskum stjórnvöldum
Aðspurður um hvort að biskupsdæmin aðlagist að einhverju leyti að þeim löndum sem þau hafi aðsetur í svarar Jakob: „Já og nei. Ef maður talar um þjóðfélagsmál sem eru á yfirráðasvæði stjórnvalda þá er kirkjan auðvitað með í ráðum og reynir að fylgjast með og styðja. Til dæmis núna um vernd umhverfis, þá er kirkjan mjög mikið með. Aftur móti ef það snýst um brot á mannréttindum og grundvallar gildum mannlegs lífs, þá stendur kirkjan bara eins og einn klettur sama hvar það gerist í heiminum. Þá er það sjálfur páfinn sem tjáir sig fyrir hönd kirkjunnar í þessum málum og við tökum undir.“
Jakob segir skoðanir kirkjunnar aftur á móti ekki fá mikinn hljómgrunn hjá stjórnvöldum hér á landi og aðspurður um hvort að kaþólska kirkjan myndi vilja hafa meiri áhrif á stjórnmál á Íslandi nú þegar kaþólikkar eru að verða sífellt fjölmennara afl á Íslandi segir Jakob svo vera.
„Sjónarmið okkar, sérstaklega hvað varðar mál þjóðfélagsins eru ekki endilega trúmál heldur bara almenn þjóðfélagsmál sem skipta kirkjuna máli. Því við viljum vernda lífið og standa fyrir mannréttindum. Þá skiptir máli að röddin okkar heyrist,“ segir Jakob.
Hér er hægt að lesa fréttaskýringu Kjarnans um kaþólsku kirkjuna í heild sinni.