Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, verður næsti varaformaður Vinstri grænna. Varaformaður og formaður VG verða sjálfkjörin á landsfundi flokksins sem stendur nú yfir en enginn bauð sig fram á móti Katrínu Jakobsdóttir formanni né Guðmundi Inga. RÚV greindi fyrst frá.
Guðmundur Ingi er fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar og var beðinn um að koma inn í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur eftir að náðst hafði saman um myndun hennar síðla árs 2017. Hann hefur gegnt embætti umhverfis- og auðlindaráðherra utan þings frá þeim tíma. Hann hefur aldrei verið í framboði til Alþingis eða beinn þátttakandi í flokkapólitík til þessa.
Elín Oddný Sigurðardóttir ritari VG sækist ekki eftir endurkjöri en núverandi gjaldkeri flokksins, Una Hildardóttir, býður sig fram í embætti ritara. Það gerir líka Ingibjörg Þórðardóttir stjórnarmaður.
Ragnar Auðunn Árnason og Rúnar Gíslason bjóða sig fram í embætti gjaldkera. Fimmtán manns eru í framboði sem meðstjórnendur en sjö verða kjörnir. Rafræn kosning hefst á landsfundi rétt fyrir klukkan þrjú í dag.