Fjölga á farþegum í innanlandsflugi um fimmtung fyrir árið 2024 samkvæmt nýrri aðgerðaáætlun samgönguráðherra. Á síðasta áratug hefur farþegum í innanlandsflugi fækkað um fimmtung og tekjur flugfélaganna tveggja ekki staðið undir kostnaði. Stjórnvöld stefna að því að styrkja grundvöll innanlands, meðal annars með því að niðurgreiði fargjöld til fólks sem býr fjarri höfuðborgarsvæðinu
Fyrsta flugstefna stjórnvalda
Í síðustu viku kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra fyrstu flugstefnu Íslands. Heildstæð flugstefna er liður í stefnumörkun samgönguáætlunar en Sigurður Ingi kynnti samhliða flugstefnunni endurskoðaða samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020 til 2034.Í nýju flugstefnunni eru meðal annars kynntar aðgerðir sem miða að því að styrkja grundvöll innanlandsflugs, bæta samþættingu þess við aðra hluta samgöngukerfisins, þar með talið millilandaflug, og gera það þannig að raunhæfum og skilvirkum kosti fyrir landsmenn.
Samkvæmt stefnunni er mikilvæg aðgerð á þessu sviði að íbúum á landsbyggðinni verði gert kleift að nýta sér betur innanlandsflugið með kostnaðarþátttöku hins opinbera. Er þá átt við að hið opinbera niðurgreiði fargjöld til fólks sem býr fjarri höfuðborgarsvæðinu og auðvelda þeim þannig að sækja þangað miðlæga þjónustu með hagkvæmum og skilvirkum hætti.
70.000 fleiri farþegar
Samkvæmt stefnunni er markmiðið að árið 2024 verði fjöldi farþega sem ferðast með innanlandsflug 440 þúsund. Árið 2018 voru farþegarnir 368.600 og þarf því farþegum að fjölga um tæplega 20 prósent á næstu árum.
Á síðasta áratug hefur farþegum í innanlandsflugi hins vegar fækkað um 20 prósent og útlit er fyrir því að í ár verði aftur fækkun milli ára. Í grænbók ráðherra frá því í sumar kemur fram að sveiflur í farþegafjölda í innanlandsflugi megi rekja til nokkurra þátta.
Þar á meðal hafi álög á innanlandsflug aukist á síðustu árum en á tímabilinu 2009 til 2013 þrefölduðust álögur vegna hækkana á lendingargjöldum, kolefnisskatti og flugleiðsögugjaldi. Þeim kostnaðarauka hefur verið velt út í verðlag en rannsóknir sýna að verðteygni í flug er um 0,5 til 1,0 sem þýðir að með 10 prósent verðhækkun verður 5 til 10 prósent fækkun í fjölda farþega, svo dæmi sé tekið.
Á vormánuðum 2019 lýstu stjórnendur Icelandair því yfir að rekstur Air Iceland Connect væri mjög erfiður og skoða þyrfti allar leiðir til að bæta hann. Önnur flugfélög í innanlandsflugrekstri hafa einnig átt í erfiðleikum og í grænbókinni segir að ljóst sé að rekstrarumhverfi þeirra sé erfitt.