Tæplega þriðjungi fleiri bílaleigubílar voru úr umferð í byrjun október í ár en í sama mánuði í fyrra. Alls voru 919 bílaleigubílar úr umferð í október miðað við 705 bíla í október 2018. Þá hefur jafnframt fækkað í heildar bílaleiguflotanum á milli ára. Þetta kemur fram í bráðabrigðatölum Hagstofu Íslands. Frá júlí 2018 til júní 2019 veltu bílaleigur hér á landi um 51 milljörðum króna eða um 4,3 milljörðum á mánuði.
60 prósent ferðamanna leigja bílaleigubíla
Um þrír af hverjum fimm ferðamönnum sem komu til landsins í fyrra ferðast um á bílaleigubíl, samkvæmt könnun Ferðamálastofu. Þá ferðaðist tæplega þriðjungur í skipulagðri rútuferð og um 15 prósent í áætlunarbifreið.
Í fyrra voru bílaleigubílar um 8 prósent af meðalútgjöldum ferðamanna og eyðir að meðaltali hver ferðamaður 16.732 þúsund krónur í bílaleigubíla, að því er fram kemur í könnunum Ferðastofu.
Meðaltekjur á hvern bílaleigubíl dragast saman
Í ferðaþjónustugreiningu Landsbankans kemur fram að á tímabilinu júlí 2018 til júní 2019 veltu bílaleigur um 51 milljörðum króna eða um 4,3 milljörðum á mánuði.
Að meðaltali voru um 23.600 bílaleigubílar í umferð á þessu tímabili. Þetta þýðir að velta á hvern bíl var um það bil 180 þúsund krónur. Dregið hefur úr veltu á hvern bíl á síðustu árum en árið 2016 var meðalvelta á hvern skráðan bíl rétt yfir 200 þúsund krónur á mánuði.