Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra stefna á að skila skýrslu um aðdraganda þess að Ísland lenti á gráa lista FATF og hvernig stjórnvöld ætla sér að koma Íslandi af honum. Sú skýrslu verður kynnt fyrir Alþingi. Ráðherrarnir komu fyrir efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í dag til að ræða um stöðu Íslands á gráum lista FATF.
Erfitt að segja til um afleiðingarnar
Tilkynnt var á föstudaginn að Ísland hefði verið sett á gráan lista alþjóðlegu samtakana Financial Action Task Force (FATF) vegna ónógra varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ísland bætist á listann ásamt Mongólíu og Simbabve.
Bjarni sagði á fundinum að erfitt væri að segja til um hvaða afleiðingar vera Íslands á gráum lista FATF muni hafi. Hann segir að stjórnvöld hafi farið yfir þá óvissuþætti sem þessu fylgi og fylgst með þeim, svo sem áhrifum veru Íslands á listanum á gengi krónunnar, lausafjárstöðustöðu bankanna, erlenda fjárfestingu, lánshæfismat og gjaldeyrismarkaði. Enn sem komið er hafi vera Íslands á gráa listanum lítil eða engin áhrif haft.
Engin raunveruleg dæmi um peningaþvætti
Bjarni sagði jafnframt að það væri spurning hvort fylgdi meiri álitshnekkir: Að vera með nokkur atriði útistandandi samkvæmt úttekt FATF eða vera með raunveruleg peningaþvættisvandamál?
„Mikilvægt er að hafa það í huga að það hafa aldrei komið fram í þessari vinnu ásökun eða ábending um að það væri raunverulegt vandamál til staðar eða dæmi um raunveruleg peningaþvættismál sem íslensk stjórnvöld ættu að hafa áhyggjur af. Þetta held ég að menn ættu að hafa í hug þegar menn tala um orðsporsáhættuna sem þessu fylgir,“ sagði Bjarni.
Jafnframt sagði hann að samtöl hans við aðra ráðherra, svo sem á fundi norrænna fjármálaráðherra, hefðu heldur dregið úr áhyggjum hans af meintum álitshnekkjum. Margir væru því sammála að Ísland ætti ekki heima á listanum.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og nefndarmaður efnahags- og viðskiptanefndar, svaraði þá Bjarna og sagði að það að engin dæmi væru um peningaþvættismál hér á landi væri frekar vísbending um veikleika eftirlitskerfisins fremur en að hér á landi væri ekki slík mál að finna.
Skýrsla væntanleg
Að lokum tilkynnti Bjarni að hann og dómsmálaráðherra hefðu rætt um að koma skýrslu fyrir Alþingi um þetta efni. Aðdraganda þess að Ísland lenti á gráa listanum og hvernig stjórnvöld ætli sér að koma landinu af listanum.
Fimmta úttekt FATF mun fara fram árið 2023 og áréttaði Áslaug Arna að með stýrihópnum, sem skipaður var árið 2018, væru stjórnvöld betur í stakk búin að taka við ábendingum frá FATF.