Marel hefur keypt 50 prósent hlut í Curio, og hefur kauprétt á afgangi hlutafjár.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Marel, en Curio fékk á dögunum Nýsköpunarverðlaunin.
Kaupin eru gerð í tveimur áföngum, 40 prósent hlutur verður afhentur þegar skilyrði kaupsamnings hafa verið uppfyllt og 10 prósent til viðbótar þann 1. janúar 2021. Marel eignast jafnframt kauprétt á eftirstandandi 50 prósent hlut eftir fjögur ár.
„Með vöruframboði Curio í flökun, hausun og roðflettingu getur Marel nú boðið viðskiptavinum heildarlausnir fyrir hvítfiskvinnslu. Kaupin styrkja stefnu Marel um að vera leiðandi á heimsvísu í hátækni heildarlausnum fyrir kjúklinga- kjöt- og fiskvinnslu. Marel og Curio eiga farsælt samstarf að baki við hönnun og framleiðslu heildarlausna fyrir viðskiptavini í fiskvinnslu víðsvegar um heim þar sem Innova vinnsluhugbúnaður Marel heldur utan um og tryggir samfellt flæði. Í samstarfi við Marel mun Curio koma til með að nýta alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel til þess að sinna viðskiptavinum enn betur,“ segir í tilkynningu frá Marel.
Stofnandi og framkvæmdastjóri Curio er Elliði Hreinsson, en félagið er með 49 starfsmenn í dag, þar af 42 á starfsstöðvum í Hafnarfirði og á Húsavík.
Curio er nýsköpunarfyrirtæki sem vinnur að þróun fiskvinnsluvéla sem auka nýtingu og skila betri afurð í vinnslu á bolfiski í afhausun, flökun og roðflettingu, ásamt því að hafa öryggismál og þrif að leiðarljósi.
Þá var enn fremur tilkynnt um það í dag, að Marel hefði samþykkt kaup á Cedar Creek Company, áströlskum framleiðanda sem sérhæfir sig í hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausnum fyrir kjöt-, fisk- og kjúklingavinnslu. Árstekjur félagsins eru um 3 milljónir evra.
Búist er við því að kaupin gangi formlega í gegn á fjórða ársfjórðungi 2019 að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum, segir í tilkynningu.
Markaðsvirði Marel er nú rúmlega 450 milljarðar, og starfsmenn yfir sex þúsund. Félagið er á skráð á markað hér á landi og í Euronext kauphöllina í Hollandi. Félagið hefur kynnt opinberlega stefnu um 12 prósent vöxt á ári til 2026.