Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis skoðar nú að fela forseta þingsins að standa að útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi í samstarfi við Þjóðaskjalasafn Íslands og Sögufélagið. Yfirrétturinn var æðsti dómstóll landsins sem starfaði á Alþingi á árunum 1563 til 1800.
Dómar réttarins þykja ekki einungis áhugaverðir fyrir bæði réttarsögu og almenna sögu Íslands á þessum tíma, heldur eru málsskjölin ómetanlegar heimildir um margt í íslensku þjóðlífi þessa tíma.
100 milljóna styrkur
Lengi hafa verið uppi fyrirætlanir um útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins og hófust áætlanir um slíka útgáfu árið 1991. Það var þó ekki fyrr en árið 2011 sem fyrsta bindið af dómum Yfirréttarins kom út og stóð Alþingi fyrir þeirri útgáfu í samstarfi við Sögufélag og Þjóðskjalasafn.
Nú hefur forsætisnefnd lagt fram þingsályktunartillögu um málið þar sem nefndin telur að vel færi á að ljúka því verki í tilefni af 100 ára afmæli Hæstaréttar á næsta ári. Nefndin leggur því til að Alþingi samþykki að styðja útgáfuna fjárhagslega um 10 milljónir árlega næstu 10 ár.
Í greinargerðinni í dag segir að með útgáfu skjala yfirréttar fengist fyllri mynd af réttarsögu Íslands en nú er fyrir hendi. Gefin hafa verið út dómar Hæstaréttar frá upphafi sem og dóma Landsyfirréttar, sem varforveri Hæstaréttar Íslands á tímabilinu 1800 til 1920.
Æðsti dómstóll Íslands fram til 1800
Eins og áður segir var Yfirrétturinn æðsti dómstóll á Íslandi frá 1563 og gegndi því hlutverki hæstaréttar á Íslandi þar til Landsyfirréttur var settur á laggirnar árið 1800. Hann var stofnaður á tíma þegar stjórnsýsla konungs var að byrja að mótast.
Í konungsbréfi Friðriks II. kemur fram að vandi væri oft fyrir fátæka landsmenn að sækja rétt sinn til Danmerkur og því væri nauðsynlegt að koma á yfirdómi á Íslandi.
Tilgangurinn var því að málum yrði vísað til hans fremur en til Kaupmannahafnar. Öll mál sem Yfirrétturinn tók fyrir höfðu áður verið tekin til meðferðar hjá lögmönnum landsins og sýslumönnum á Alþingi en dómstörfin fóru fram í Lögréttu.
Ómetanlegar heimildir um íslenskt þjóðlíf á þessum tíma
Í greinargerð þingsályktunartillögunnar segir að heimildargildi dóma og málsskjala Yfirréttarins er ótvírætt. Mest hafi þó varðveist af skjölum og dómabókum frá 18. öld en sú öld var tími mikilla breytinga í Íslandssögunni, hugmyndir um réttarfar breyttust og þar tókust á eldri lagahugmyndir Íslendinga og þeirra dönsku og norsku lögbóka sem innleiddar voru eftir að einveldi var tekið upp árið 1662.
Enn fremur segir í greinargerðinni að ekki aðeins séu dómarnir áhugaverðir fyrir bæði réttarsögu og almenna sögu Íslands á þessum tíma, heldur séu málsskjölin ómetanlegar heimildir um margt í íslensku þjóðlífi þessa tíma. Málsskjölin eru í raun beinar heimildir um hugarfar, réttarfar og viðhorf einnig heimildir um aðstæður, stéttaskiptingu, samgöngur, búskaparhætti og margt fleira.