Fjármálaeftirlitið (FME) gerði athugasemdir við framkvæmd virðismats útlána hjá Arion banka sem eftirlitið lagði mat á í vettvangsathugun sinni í bankann í febrúar og mars á þessu ári. Þetta kemur fram í gagnsæistilkynningu sem eftirlitið hefur birt á vef sínum, en niðurstaða athugunarinnar lá fyrir í október 2019.
Í athuguninni tók FME úrtak útlána til fimm viðskiptamanna Arion banka og aðila tengdum þeim og yfirfór niðurstöður virðismats bankans með sérstakri áherslu á bókfært virði skuldbindinganna miðað við 31. desember 2018. Auk þess var skoðuð framkvæmd virðismats útlána í úrtaki sem snéri að verklagi og meðhöndlun gagna, svo sem skráningu gagna og skjalavistunar, fylgni við innri verklagsreglur og flokkun í lánasafnsskýrslu Fjármálaeftirlitsins. Í frétt FME segir að eftirlitið hafi ekki gert athugasemd við bókfært virði útlána í úrtaki en á hinn bóginn geri það slíkar við framkvæmd virðismats útlána í úrtaki og fór fram á viðeigandi úrbætur. Þær athugasemdir sem FME gerði snúa að því að tryggingaskráningarkerfi Arion banka endurspeglaði í nokkrum tilvikum ekki stöðu viðskiptamanna með fullnægjandi hætti, virðismatsferli bankans var ekki fylgt nákvæmlega í tilviki eins viðskiptamanns og óvissa var um virði trygginga vegna útlána til eins viðskiptamanns og aðila honum tengdum vegna þess að bankinn hafði ekki tekið tillit til virðishækkana tiltekinna trygginga. Þá var skilyrðum fyrir lánveitingum til tveggja viðskiptamanna ekki fullnægt að öllu leyti og misbrestur var á flokkun lánveitinga til eins viðskiptamanns í lánasafnsskýrslu FME.
Athugasemdir vegna peningaþvættisvarna fyrr á þessu ári
Þetta er önnur gagnsæistilkynningin vegna brotalama hjá Arion banka sem FME birtir á þessu ári. Kjarninn greindi frá því 31. maí síðastliðinn að FME hefði framkvæmt athugun á aðgerðum Arion banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Slík athugun á Arion banka hófst í október 2018 og leiddi til þess að eftirlitið gerði margháttaðar athugasemdir við brotalamir hjá bankanum í janúar 2019.
Niðurstaða athugunar FME á Arion banka var birt 29. maí síðastliðinn, rúmum fjórum mánuðum eftir að niðurstaða athugunarinnar lá fyrir. Það var gert að beiðni Arion banka sem vildi fá að bregðast við úrbótakröfum áður en niðurstaðan yrði gerð opinber. Bankinn segist hafa brugðist við öllum úrbótakröfum. FME vill ekki svara því hvaða tímaramma Arion banka var settur til að koma á úrbótum.
Í athugun FME á Arion banka kom meðal annars fram að bankinn hefði hefði ekki metið með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um raunverulega eigendur viðskiptavina væru réttar og fullnægjandi og að þær upplýsingar hafi ekki verið uppfærðar með reglulegum hætti, líkt og lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka gerðu ráð fyrir. Eftirlitið gerði einnig athugasemd um að Arion banki hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni í tilviki erlends viðskiptavinar, það taldi að reglubundið eftirlit bankans með viðskiptavinum hafi ekki fullnægt kröfum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka né að verklag í tengslum við uppfærslu á upplýsingum um viðskiptavini hafi ekki verið fullnægt. Þá taldi FME að skýrslur Arion banka um grunsamlegar og óvenjulegar færslur hefðu ekki verið fullnægjandi.