Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda hafa skrifað undir samkomulag um að stefna að því að íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð árið 2040. Ráðstafað verður nærri þriðjungi af því fjármagni sem stjórnvöld veita greininni til framleiðslujafnvægis til aðgerða sem draga úr kolefnisfótspori nautgriparæktar. Þetta kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðsins.
Losaði 650 kílótonn af koltvísýring
Ræktun á nautgripum til kjöt- og mjólkurframleiðslu á langstærstan þátt í losun gróðurhúsalofttegunda í búfjárrækt í heiminum samkvæmt skýrslu FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Áætluð losun nautgripa er ríflega 5 milljarðar tonna í koltvísýringsígildum, eða rúm 65 prósent af árlegri losun allra gróðurhúsalofttegunda í búfjárrækt í heiminum.
Í skýrslunni er greint frá því hvernig draga má úr losun gróðurhúsalofttegunda í búfjárrækt með því að draga úr framleiðslu og neyslu búfjárafurða eða með því að draga úr losun við framleiðsluna. Talið er að með því að breyta framleiðsluferli búfjárræktar megi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í greininni um allt að 30 prósent eða um 1,8 milljarða tonna koltvísýringsígilda.
Í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum kemur fram að 21 prósent allra þeirra losunar sem íslensk stjórnvöld bera beina ábyrgð á, samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum, kemur frá landbúnaði. Í tölum Hagstofunnar má jafnframt sjá að landbúnaður og matvælaframleiðsla hér á landi losuðu 649,6 kílótonn af koltvísýring út í umhverfi árið 2017.
Allar afurðir verði vottaðar sem kolefnishlutlausar
Samkomulagið sem undirritað var í síðustu viku, er hluti af endurskoðun á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar. Í samkomulaginu kemur fram að stjórnvöld og fulltrúar bænda séu sammála um stefna að því að nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð eftir 20 ár, árið 2040.
Samkvæmt samkomulaginu verður markmiðinu náð með því að auka enn frekar þekkingu bænda á sínu landi og um leið efla getu þeirra til að auka bindingu kolefnis á því og draga úr losun. Auka þurfi því rannsóknir, ráðgjöf og fræðslu fyrir bændur.
Auk þess verði unnið að því að draga úr losun og binda kolefni með bættri fóðrun, meðhöndlun og nýtingu búfjáráburðar, markvissri jarðrækt og öðrum þeim aðgerðum er miða að því að kolefnisjafna búskap.
Jafnframt kemur fram í samkomulaginu að innleiða þurfi fjárhagslega hvata fyrir bændur til að ná árangri í að auka bindingu. Því verður heimilt að nýta 30 prósent af því fjármagni sem veitt er til framleiðslujafnvægis til verkefna að draga úr kolefnisfótspori nautgriparæktar.
Ef markmiðinu verður náð þá verða allar afurðir frá íslenskum nautgripabændum vottaðar sem kolefnishlutlausar fyrir árið 2040.