Á þriðja ársfjórðungi 2019 var hlutfall fyrstu kaupenda á höfuðborgarsvæðinu 28,2 prósent af heildarfjölda kaupsamninga. Það hlutfall hefur aldrei verið hærra frá því að byrjað var að mæla hlutfall fyrstu kaupenda árið 2008.
Til samanburðar var hlutfall fyrstu íbúðarkaupenda á sama ársfjórðungi árið 2009 alls 5,8 prósent af öllum þingsamningum. Þetta kemur fram í nýjum tölum Þjóðskrár.
Fyrstu kaupendur þriðjungar kaupenda á Vestfjörðum
Þrátt fyrir mikla hækkun á fasteignaverði síðastliðinn áratug, það hefur rúmlega tvöfaldast í krónum talið, þá hefur hlutfall nýrra kaupenda ekki lækkað heldur þvert á móti aukist umtalsvert. Hlutfall fyrstu kaupsamninga hefur verið hærra í ár en á undanförnum árum.
Þó að hlutfallið hafi aldrei verið hærra á höfuðborgarsvæðinu þá er hlutfall fyrstu kaupenda þó enn hærra í öðrum landshlutum. Hæst er hlutfallið á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra eða alls 33 prósent.
Á sama tíma og hlutfall fyrstu kaupenda hefur aldrei verið hærra þá hefur dregið úr heildarfjölda kaupsamninga um alls 4,3 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Alls voru 549 kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu á þriðja ársfjórðungi fyrstu kaup en fjölda kaupsamninga alls 1949.
Íbúðaverð hækkar nú mest á landsbyggðinni
Árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 2,4 prósent í ágúst síðastliðnum, samkvæmt vísitölu paraðra íbúðaviðskipta. Megnið af þeirri hækkun átti sér stað í september til desember í fyrra, hækkunin á fyrstu átta mánuðum þessa árs er aðeins um 0,5 prósent. Árshækkun íbúðaverðs í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins nam 6,3 prósent og annars staðar á landsbyggðinni um 3 prósent.Í ágúst var um 82 prósent allra íbúðaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu undir ásettu verði samanborið við 77 prósent í júlí, ef miðað er við verð í síðustu fasteignaauglýsingu áður en kaupsamningur var undirritaður.