Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, þakkar Samtökum atvinnulífsins (SA) fyrir birtingu á launakjörum blaðamanna í nýjum pistli á vef félagsins. Þar segir hann upplýsingar SA staðfesta með afgerandi hætti hversu léleg laun blaðamanna raunverulega séu.
Í frétt sem SA birti á heimasíðu sinni í gær sagði laun blaðamanna væru yfir miðju launadreifingar þegar litið væri til reglulegra launa og rétt undir miðgildi grunnlauna. Því væru fullyrðingar Hjálmars í fjölmiðlum um að að blaðamenn séu með lægstu laun háskólamenntaðra í landinu, rangar.
Blaðamenn sem starfa hjá Sýn, Torgi útgáfufélag Fréttablaðsins, Árvakri og RÚV samþykktu afgerandi í gær að fara í verkfall.
Hjálmar segir í pistli sínum að upplýsingarnar sem SA birti um regluleg laun sýni og sanni að blaðamenn séu langlægsta vaktavinnustéttin sem þar er tilgreind. „Það liggur einnig fyrir að laun blaðamanna ná ekki meðallaunum í landinu, samkvæmt tölum Hagstofunnar, svo nemur tugum þúsunda. Það væri svo sem eftir öðru í þessum samningaviðræðum að Samtök atvinnulífsins hefðu ekki áttað sig því, þrátt fyrir sjö mánaða samningaviðræður og fjölda bókaðra funda hjá ríkissáttasemjara, að blaðamenn sinna starfi sínu á öllum tímum sólarhrings, en ekki bara á skrifstofutíma.“
Fyrstu verkfallsaðgerðir blaðamanna þeirra miðla sem eru í samfloti innan SA verða föstudaginn 8. nóvember, þegar vinnustöðvun verður í fjóra tíma á netmiðlum ofangreindra miðla.
Viku síðar mun vinnustöðvunin á netmiðlunum vara í átta klukkustundin og þann 22. nóvember í tólf klukkustundir.
Ef ekki verður samið fyrir 28. nóvember á vinnustöðvunin að taka til blaðamanna sem sinna störfum við prentútgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, auk ljósmyndara og tökumanna. Það þýðir að tvö stærstu dagblöð landsins næðu ekki að koma út á svokölluðu „Svörtum föstudegi“, sem er einn stærsti auglýsingasöludagur ársins.
Kjarninn og Birtingur hafa þegar samið við Blaðamannafélag Íslands um nýjan kjarasamning vegna síns starfsfólks.