Áætlað er að heildarlosun örplasts frá þvotti á Íslandi sé allt að 32 tonn á hverju ári. Líklegt þykir hins vegar að losunin sé enn meiri þar sem notkun gerviefna í fatnaði eykst með hverju ári. Þetta magn af örplast skolast síðan beint út í haf þar sem á Íslandi er ekki gert ráð fyrir síun örplastagna í frárennsli. Þetta kemur fram í skýrslu um örplast í íslensku umhverfi.
Örplast frá þvotti ein af helstu uppsprettunum
Plastrusl finnst hvarvetna í hafinu allt frá svokölluð plasteyjum niður í örplastagnir sem myndast ýmist við niðurbrot plasts í sjónum eða berast þangað frá landi. Síðustu ár hafa vísindamenn verið að varpa ljósi á alvarleika öragna og örplast mengunar í hafi.
Í skýrslu sjávarlíftæknisetursins BioPol sem unnin var fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið voru greindar uppsprettur örplasts á Íslandi, lagt mat á stærð þeirra og eftir hvaða leiðum örplastið berst til sjávar.
Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að langstærsta uppspretta örplasts hér á landi eru hjólbarðar eða alls 75 prósent. Aðrar stórar uppsprettur eru plastagnir úr vegmerkingum, húsmálningu og frá þvotti.
Notkun plasts í fatnaði eykst með hverju ári
Gerviefni eru algeng í fatnaði og er þá um að ræða þræði úr plastefnum eins og til dæmis pólýester og akrýl. Við þvott fatnaðar losnar þónokkuð magn þráða úr fatnaðinum og á það bæði við um fatnað úr gerviefnum og náttúrulegum efnum á borð við ull, silki og bómull.
Plastþræðir gerviefna renna síðan með niðurfalli þvottavéla til viðtakans, hvort sem það er rotþró eða sjórinn.
Í skýrslunni var losun örplastsmengunar frá fataþvotti til sjávar á Íslandi áætluð með því að margfalda íbúa með áætluðum fjölda þvotta á ári og áætlaðri meðallosun örplastþráða við hvern þvott. Áætluð heildarlosun örplasts frá þvotti á Íslandi á ári er samkvæmt niðurstöðum skýrslunni 8,2 til 32 tonn.
Settur er þó fram sá fyrirvari í skýrslunni að tölurnar sem notaðar voru eru frá 2010 og þar sem fatnaður úr náttúrulegum efnum er á undanhaldi og notkun gerviefna í fatnaði eykst ár hvert sé líklegt að um vanmat sé að ræða um magn örplasts frá þvotti.
Plastmengun í hafi snertir líka Íslendinga
Biopol hefur einnig fylgst með eðlis- og líffræðilegum þáttum sjávar við Skagaströnd með reglulegum mælingum frá árinu 2012. Í sýnum sínum hafa þau fundið töluvert magn af örplasti.
Magn plasts í hverju sýni hefur verið mjög breytilegt en starfsmaður Biopol telur að plastið sé mestmegnis beint frá heimilum, þar á meðal frá þvottavélum.
„Dæmi hver fyrir sig en okkur finnast þessar myndir frekar óhugnanlegar og varpa ljósi á að plastmengun í hafinu er ekki endilega bara vandamál sem snerta aðrar þjóðir og fjarlæg hafsvæði,“ segir Halldór Gunnar Ólafsson, framkvæmdastjóri Biopol í samtali við Fiskifréttir í maí á síðasta ári og vísar til myndarinnar hér til hliðar.
Úrbóta þörf í hreinsistöðvum á Íslandi
Í skýrslu um losun örplasts með skólpi sem Matís vann í samstarfi Sænsku umhverfisrannsóknarstofnunina (IVL), Finnsku umhverfisstofnunina (SYKE) og Aalto-háskólann í Finnlandi kom fram að eina hreinsunin sem framkvæmd er á skólpi á Íslandi, meðal annars í Klettagarðastöðinni og skólphreinsistöðinni í Hafnarfirði, sé grófsíun.
Agnir sem eru minni en millimetri og niður í hundrað míkrómetra fara gegnum stöðvarnar og út í umhverfið. Annað er upp á teningnum í Svíþjóð og Finnlandi þar sem 99 prósent öragna setjast í óhreinindin sem skiljast frá fráveituvatni eftir forhreinsun.
Hrönn Jörundsdóttir, sviðsstjóri og sérfræðingur hjá MATÍS, vann að skýrslunni en hún sagði í samtali við Kjarnann í maí 2017 að Íslendingar verði að hugsa skólphreinsun upp á nýtt og fara að taka ábyrgð á þessum hlutum. Ekki sé einungis mikilvægt að huga að lífrænni mengun heldur verði að skilja að plastagnir og lyfjaleifar komi úr skólpinu sem fer út í sjó og menga út frá sér. Plastið brotni ekki niður og því hverfi vandamálið ekki þrátt fyrir að því sé dælt út í sjó.