Stjórn Solaris – hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi hefur fordæmt forkastanlega meðferð íslenskra yfirvalda á óléttri konu á flótta og fjölskyldu hennar í nótt.
Þetta kemur fram á Facebook-síðu þeirra í dag.
„Í nótt var ung kona, sem komin er 36 vikur á leið, handtekin og brottvísað úr landi ásamt manni sínum og tveggja ára syni þeirra. Landlæknisembættið metur konuna í „áhættuhópi og í mjög viðkvæmri stöðu.“ Lögreglan mætti án fyrirvara fyrr um kvöldið til þess að sækja fjölskylduna til brottvísunar. Álagið af því leiddi til þess að konan þurfti að sækja sér aðstoð á sjúkrahúsi. Þar fékk konan vottorð sem í stóð að hún ætti erfitt með langt flug vegna þess hve langt hún er gengin. Öll vitum við að það er ekki mælt með því að konur sem eru langt gengnar fljúgi. Hvað þá undir álagi og streitu eins og íslensk yfirvöld sköpuðu fyrir konuna í nótt. Það stofnar öryggi og hreinlega lífi konunnar og ófædds barns hennar í hættu,“ segir í stöðuuppfærslu samtakanna.
Þá kemur fram hjá Solaris að með því að brottvísa konunni undir því álagi sem meðferði á henni og fjölskyldu hennar hefur haft á þau öll, þvert á ráðleggingar lækna, stefni Útlendingastofnun, dómsmálaráðherra og íslensk stjórnvöld þeim í mikla hættu.
Það sé forkastanleg meðferð á fólki í viðkvæmri stöðu sem stjórn Solaris fordæmi harðlega. „Við krefjumst þess að dómsmálaráðherra og Útlendingastofnun svari fyrir þessa ómannúðlegu og grimmilegu meðferð á fólki, sem þar að auki var enn með mál sitt í úrvinnslu hjá yfirvöldum. Við krefjumst þess að fá raunveruleg svör við því hvernig í ósköpunum svona hlutir geti gerst. Við krefjumst mannúðar, mannréttinda og réttlætis fyrir fólk á flótta!“
Stjórn Solaris fordæmir forkastanlega meðferð íslenskra yfirvalda á óléttri konu á flótta og fjölskyldu hennar í...
Posted by Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi on Tuesday, November 5, 2019