Barnshafandi 26 ára albanska konan, eiginmaður hennar og tveggja ára sonur lentu í nótt í Albaníu eftir 19 tíma ferðalag. Þeim var vísað frá Íslandi með lögregluvaldi í gærnótt þrátt fyrir að konan sé gengin 36 vikur á leið með annað barn þeirra. Fjölskyldan var enn í haldi lögreglu í Albaníu í nótt þegar myndin sem fylgir með þessari frétt var tekin af syni þeirra.
Flogið var með fjölskylduna til Berlín og þaðan áfram til Albaníu.
Mál fjölskyldunnar komst í hámæli í gærmorgun þegar það birtist færsla á Facebook-síðu Réttur barna á flótta þar sem kom fram að henni hefði verið vísað úr landi um klukkan 18 í gær þrátt fyrir að vera í miðju málaferli við Útlendingastofnun. Það væri gert þrátt fyrir að móðirin sé komin níu mánuði á leið og þrátt fyrir að eiga tveggja ára gamalt barn – barn sem fæddist á 36. viku.
Lögreglan hafi síðar komið með læknisvottorð frá lækni sem hafði aldrei skoðað konuna vegna meðgöngunnar, en samkvæmt vottorðinu mátti hún fljúga þrátt fyrir að vera gengin svona langt á leið með barn. Lögreglan keyrði fjölskylduna í kjölfarið upp á flugvöll til að vísa þeim úr landi.“
Hörð viðbrögð
Útlendingastofnun sendi frá sér tilkynningu síðar í gær þar sem sagði að hún hefðifylgt verklagi. Einstaklingum sem synjað hafi verið um alþjóðlega vernd og eigi ekki annan rétt til dvalar hér á landi lögum samkvæmt beri að yfirgefa landið. Þegar ákvörðun í máli er framkvæmdarhæf sendir Útlendingastofnun beiðni um lögreglufylgd til stoðdeildar ríkislögreglustjóra.
Stjórn Solaris – hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi fordæmdi hins vegar forkastanlega meðferð íslenskra yfirvalda konunni og fjölskyldu hennar.
Í Stundinni var greint frá því að Landlæknisembættið segðist meta konuna „í áhættuhópi og mjög viðkvæmri stöðu“ og að það væri litið „alvarlegum augum“ að ráðleggingum sérfræðinga Landspítalans hafi ekki verið hlýtt.
Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, óskaði eftir fundi með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra til að ræða stöðu hælisleitenda í ljósi þess að konunni barnshafandi var vísað úr landi í nótt með tveggja ára barni sínu.
Í yfirlýsingu frá biskupi Íslands sagði að það væri „ólíðandi verknaður að senda barnshafandi konu burt í óvissu og örbirgð.“
Ráðherra var brugðið
„Ég fékk fregnir af þessu máli í fjölmiðlum í morgun líkt og aðrir. Þó ég geti ekki tjáð mig um einstök mál get ég þó sagt að mér var brugðið líkt og öðrum,“ sagði Áslaug Arna um málið á Facebook síðu sinni í gærkvöldi. „Við viljum öll að farið sé varlega þegar um er að ræða þungaðar mæður, börn þeirra, fædd og ófædd. Almennt er verklagið á þann veg í dag að fengin eru tilmæli frá heilbrigðisyfirvöldum um hvort einhver hætta sé vegna brottfarar þeirra sem um ræðir úr landi. Ef svo er er brottvísun frestað. Það hefur oft orðið raunin, til að mynda vegna þungunar kvenna í þessari erfiðu stöðu“.