Rúmlega þúsund manns hafa tekið þátt í umræðum á samráðsvefnum Betra Ísland þar sem almenningi gefst kostur á að koma á framfæri eigin hugmyndum um stjórnarskrárbreytingar og afla þeim stuðnings.
Samráðsvefurinn er hluti af almenningssamráði um endurskoðun stjórnarskrárinnar og um helgina fór jafnframt fram rökræðukönnun um nokkur ákvæði stjórnarskrárinnar. Niðurstöður samráðsins verða kynntar fyrir formannanefnd allra flokka á Alþingi sem vinna nú að endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Ákveðin áskorun að vekja áhuga fólks á stjórnarskránni
Háskóli Íslands (HÍ) og Betra Ísland standa saman að samráðinu en markmið þess er að styðja við endurskoðun stjórnvalda á stjórnarskránni og tryggja að rödd almennings hafi vægi. Samráðinu lýkur á miðnætti í dag, sunnudaginn 10. nóvember.
Ein af þremur skrefum samráðsins er samráðsvefur Betra Íslands þar sem hægt er að setja fram hugmyndir um stjórnarskrárbreytingar, afla þeim stuðnings og rökræða þær frekar. Í fréttatilkynningu frá Betra Íslandi kemur fram að yfir 15.000 manns hafa heimsótt vefinn. Aftur á móti hafa aðeins rúmlega þúsund manns skráð sig inn og tekið beinan þátt í rökræðum.
Róbert Bjarnason, einn af stofnendum Betra Íslands og framkvæmdastjóri Íbúa ses, segir í samtali við Kjarnann að þau sem standi að verkefninu hafi gert sér grein fyrir að það væri ákveðin áskorun að vekja áhuga fólks á stjórnarskránni.
Til að mynda hafi komið fram í niðurstöðum skoðanakönnunar félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á viðhorfum almennings til stjórnarskrárinnar, sem framkvæmd var í sumar, að aðeins 4 prósent telja sig hafa mikla þekkingu á stjórnarskránni.
Róbert segir því að þátttakan á samráðsvefnum standist nokkuð vel væntingar og svipaðar tölur megi finna í öðrum samráðsvettvöngum hjá stofnuninni. Róbert segist jafnframt vera ánægður með breiddina í þeim hugmyndum sem birt hafa verið á vefnum og að mikið af nýjum rökum með og á móti breytingartillögunum hafi komið í ljós.
Stjórnarskrárleikur og rökræðufundur
Til viðbótar við samráðsvefinn hefur HÍ og Betra Ísland líka þróað stjórnarskrárleik sem hægt er að spila á netinu sem heitir Þín eigin stjórnarskrá. Markmið leiksins er að gera hönnun stjórnarskrár að skiljanlegu og skemmtilegu verkefni.
Róbert segir að mikið af fólki þyki stjórnarskráin flókin en að hans mati er stjórnarskráin í raun með einfaldari og hnitmiðaðri lögum landsins. Með þessum nýjum skrefum í almenningssamráði sé því vonast eftir því að auka vitund og skilning almennings, ekki síst yngra fólks um stjórnarskrána og þau mikilvægu málefni sem hún fjallar um.
Þriðja skrefið í þessu almenningssamráði er rökræðufundur um breytingar á stjórnarskrá sem fór fram um helgina í Laugardalshöll á vegum Forsætisráðuneytisins og HÍ. Tekið var 300 manna úrtak úr þeim hópi sem tók þátt í skoðanakönnuninni í sumar og þeim boðið að taka þátt í rökræðukönnuninni.
Rökræðukönnunin fer þannig fram að þátttakendum er skipt í hópa sem ræða viðfangsefni út frá rökum með og á móti ýmsum tillögum undir stjórn umræðustjóra. Að loknum umræðum um hvert efni gefst þátttakendum tækifæri á samtali við sérfræðinga í pallborðsumræðum. Viðhorfskönnun fer fram í upphafi fundar og einnig í lok hans og þannig er kannað hvort breytingar verði á viðhorfum fólks við að taka þátt í rökræðukönnuninni.
Rökræðukönnunin um helgina tók fyrir nokkur atriði sem byggð eru á minnisblaði forsætisráðherra. Það eru ákvæði um embætti forseta Íslands, þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði, Landsdóm, breytingar á stjórnarskrá, kjördæmaskiptingu og atkvæðavægi og alþjóðasamstarf og framsal valdheimilda.
Niðurstöðurnar kynntar fyrir formannanefndinni
Niðurstöður samráðsvefsins, rökræðufundarins og skoðanakönnunarinnar verða síðan teknar saman og kynntar fyrir nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar með öllum formönnum flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi.
Sú nefnd vinnur nú að breytingartillögum sem lagðar verða fyrir Alþingi og í maí síðastliðnum lagði forsætisráðherra fram tvö frumvarpsdrög er varða breytingar á stjórnarskránni til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Annars vegar er um að ræða frumvarp um umhverfisvernd og hins vegar frumvarp um auðlindir í náttúru Íslands.
Nú kemur að pólitíkusunum
Róbert segir að með þessum þremur mismunandi samráðsleiðum sé verið að reyna koma rödd almennings inn í nefndarvinnu formannanna á Alþingi. Hann segir það hins vegar eiga eftir að koma í ljós hversu mikil áhrif niðurstöður samráðsins hafa á vinnu nefndarinnar. „Nú kemur að pólitíkusunum að fara eftir þessum niðurstöðum,“ segir Róbert.
Hann segir jafnframt að ástæða þess að Betra Ísland og HÍ hafi ákveðið að taka þátt í þessu ferli hafi verið af því að allir stjórnmálaflokkarnir á þingi taki þátt í endurskoðuninni. Hann segir að ef þetta hefði aðeins verið vinna ríkisstjórnarflokkanna þriggja þá hefðu þeir eflaust ekki tekið þátt en þar sem formenn allra flokkanna séu að taka þátt þá sé þessi vinna líklegru til árangurs.