Stjórnarskrárfélagið hefur sent frá sér tilkynningu í tilefni af umfjöllun mbl.is og leiðarahöfunda Moggans um meint afskipti félagsmanna stjórnarskrárfélagsins af rökræðukönnun um Stjórnarskrána sem haldin var um helgina. Félagið segir að að umfjöllunin blaðsins sé fjarstæðukennd þar sem að forstöðumaður Félagsvísindastofnunar hafi komið því skýrt á framfæri að viðvera félagsmanna Stjórnarskrárfélagsins hafi ekki haft áhrif á fundinn sem í raun var öllum opinn.
Gengið þvert gegn niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar
Síðustu helgi fór fram rökræðukönnun á vegum forsætisráðuneytisins og Háskóla Íslands um stjórnarskrána í Laugardagshöll. Í tilkynningu Stjórnarskrárfélagsins segir að rökræðukönnunin hefði getað unnið með tillögur stjórnarlagaráðs sem 2/3 hluta kjósenda studdu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Félagið hafi reynt á fyrri stigum að koma ábendingum um þetta á framfæri við undirbúningsnefnd og skipuleggjendur rökræðukönnunarinnar en án árangurs.
„Með því móti hefðu lýðræðisleg vinnubrögð verið virt og ekki gengið þvert gegn afgerandi niðurstöðu úr lögmætri þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir í tilkynningunni.
Félagið segist þó fagna opinni umræðu um stjórnarskrármálið og ákvað félagið því að gefa þeim sem tóku þátt í rökræðukönnunin einstak af nýju stjórnarskránni.
Segir meðlimi Stjórnarskrárfélagsins ekki hafa haft áhrif á fundinn
Mbl.is fjallaði um viðveru Stjórnarskrárfélagsins á fundinum og hafði meðal annars eftir heimildarmanni að honum þætti vera félagsins á fundinum áróður og að það hafi komið honum á óvart að hagsmunaaðilar hefðu fengið eins greiðan aðgang að fundinum og raun bar vitni.
Í fréttinni segir jafnframt að meðlimir úr Stjórnarskrárfélaginu hafi ekki fengið að sitja við fundarborðin en þeir hafi haft greiðan aðgang að fundargestum í hléum.
Enn fremur var fjallað um félagsmennina í leiðara Morgunblaðsins í dag. Þar segir meðal annars í gær hafi verið sagðar fréttir af því að „stjórnarskrárruglið“ gengi nú aftur. „Og allur var aðdragandinn jafn vitlaus og síðast og jafnvel voru fulltrúar ólögmæta „stjórnlagaráðsins“ hafðir í áhrifastöðum á nýju upphafsfundunum, dreifandi gömlu gögnunum sem gengu aldrei upp og hleypandi upp fundinum, sem er varla gagnrýnisvert,“ skrifar leiðarahöfundur.
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, sagði í samtali við Vísi í gær að viðvera meðlima úr Stjórnarskrárfélaginu hafi engin áhrif haft á fundinn. „Það var engum bannað að vera þarna. Við leyfðum fólki að koma inn, og sjá hvernig þetta færi fram, en fólki var ekki leyft að taka þátt í umræðunum nema þeim sem voru valdir í úrtakið,“ sagði Guðbjörg Andrea.
Góð áminning um sérhagsmunaöflin sem standa að útgerð Morgunblaðsins
Stjórnarskrárfélagið segir í tilkynningu sinni að umfjöllun Morgunblaðsins sé fjarstæðukennd en að fréttaflutningur sem þessi sé góð áminning um þau „sérhagsmunaöfl sem standi að útgerð Morgunblaðsins og undir viðvarandi taprekstri þess.“
Að lokum skorar Stjórnarskrárfélagið á alla sem vilja standa vörð um lýðræði í landinu að notfæra sér umræðuna um stjórnarskrárbreytingar og þrýsta á um gildistöku nýju stjórnarskrárinnar, „sem því miður hefur fengið að safna ryki innan veggja Alþingis síðastliðin sjö ár. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn.“