„Í mínum huga kemur ekkert annað til greina en að eignir Samherja verði frystar núna strax á meðan á rannsókn stendur. Um er að ræða rannsókn á mögulegu mútubroti, peningaþvætti og skattalagabrotum. Hér er ekki um einhverja sjoppu að ræða heldur milljarðafyrirtæki með umtalsverð umsvif í fjölda ríkja og skattaskjólssvæðum.“
Þetta segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í stöðuuppfærslu á Facebook. Hún minnir þar auk þess á að eignir dægurlagahljómsveitarinnar Sigurrósar hafi verið frystar vegna rannsóknar á meintum skattalagabrotum hljómsveitarmeðlima sem varðaði nokkra tugi eða hundruð milljóna.
„Þá tel ég heldur ekkert annað koma til greina en að sjávarútvegsráðherra og fyrrverandi stjórnarformaður Samherja stígi til hliðar á meðan á rannsókn héraðssaksóknara stendur enda málið algjörlega fordæmalaust.“ Þar á Helga Vala við Kristján Þór Júlíusson.
Eigið fé Samherjasamstæðunnar, samkvæmt ársreikningum félaga hennar á Íslandi, var 111 milljarðar króna um síðustu áramót.
Í mínum huga kemur ekkert annað til greina en að eignir Samherja verði frystar núna strax á meðan á rannsókn stendur. Um...
Posted by Helga Vala Helgadóttir on Wednesday, November 13, 2019
Krafa Helgu Völu er sett fram í kjölfar þess að umfjöllun, sem unnin var í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks og opinberuð var í gærkvöldi. Í henni kom fram að hópur sem inniheldur meðal annars sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra Namibíu, hefur fengið 1,4 milljarð króna hið minnsta greiddan frá Samherja á undanförnum árum. Auk þess hafi ráðherra í Angóla fengið greiðslur. Namibísku ráðherrarnir hafa báðir sagt af sér embætti í dag.
Kjarninn greindi frá því í gærkvöldi að Jóhannes Stefánsson, sem var verkefnastjóri Samherja í Namibíu fram til ársins 2016, og steig fram í Kveik-þætti kvöldsins, hefði rætt við starfsmenn héraðssaksóknara í gær. Jóhannes viðurkenndi í Kveiks-þættinum að hafa brotið lög fyrir hönd Samherja þegar fyrirtækið náði í umtalsverðan kvóta í Namibíu. Þar kom einnig fram að Jóhannes hefði gefið sig fram við yfirvöld í Namibíu, hefði fengið lagalega stöðu uppljóstrara og aðstoðaði nú við rannsókn þeirra á starfsháttum Samherja.
Embætti skattrannsóknarstjóra staðfesti einnig við Kjarnann í dag að því hafi borist gögn nýlega frá namibískum yfirvöldum.