Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, gerir forstjóraskipti í Samherja að umræðuefni á Facebook-síðu sinni í dag. Hún gagnrýnir að nýi forstjórinn sé jafnframt stjórnarformaður Íslandsstofu.
Fram kom í fréttum í morgun að Þorsteinn Már Baldvinsson, einn aðaleigenda Samherja, hefði ákveðið að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri. Þetta hefði verið gert í samkomulagi við stjórn fyrirtækisins vegna yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu. Í yfirlýsingu frá Samherja segir að ráðstöfunin gildi þar til að niðurstöður þeirrar rannsóknar Samherja á eigin ætluðum brotum liggja fyrir. Rannsóknin, sem er í höndum alþjóðlegu lögmannsstofunnar Wikborg Rein, mun heyra beint undir stjórn félagsins.
Enn fremur kom fram að Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group og stjórnarformaður Íslandsstofu, hefði tekið tímabundið við stöðu forstjóra Samherja.
Segir þetta algjörlega óásættanlegt
Inga bendir á að Íslandsstofa sé andlit Íslendinga út um allan heim. „Íslandsstofu er ætlað að markaðssetja Ísland og aðstoða fyrirtæki við að koma vörum sínum á framfæri. Að stjórnarformaður Íslandsstofu sé nú orðið andlit Samherja út á við á meðan fyrirtækið liggur undir grun um að stunda múturgreiðslur, peningaþvætti og skipulagaða glæpastarfssemi er algjörlega óásættanlegt,“ skrifar hún á Facebook.
Hún spyr að lokum hvort utanríkisráðherra ætli að láta þetta viðgangast.
Forstjóri og stjórn Samherja hafa komist að samkomulagi um að forstjóri félagsins, Þorsteinn Már Baldvinsson, stígi...
Posted by Inga Sæland on Thursday, November 14, 2019