Botnplata nýju Landsbankabyggingarinnar á Austurbakka 2 verður steypt laugardaginn 16. nóvember og hefst vinnan um nóttina. Verkið er umfangsmikið og verður umferð steypubíla áberandi, en þeir þurfa að koma 190 ferðir í miðborgina.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Gefin hefur verið heimild til þessarar vinnu frá klukkan 02:00 til 24:00 og meðan unnið er þarf að loka hægri akrein Kalkofnsvegar í átt að Lækjargötu. Einnig verður mynduð tvístefna á um 100 metra kafla við gatnamót Kalkofnsvegar og Geirsgötu.
Áætlaður kostnaður nemur níu milljörðum króna
Nýjar 16.500 fermetra höfuðstöðvar Landsbankans, „Kletturinn“, rísa nú við Austurhöfn, á einni af dýrustu lóðum landsins. Áætlaður kostnaður við höfuðstöðvarnar nemur níu milljörðum króna og stefnt er að því bankinn muni flytja inn í þær annað hvort 2021 og 2022. Landsbankinn er í 98,2 prósent eign skattgreiðenda.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, kallaði í byrjun nóvember á þessu ári eftir svörum frá fjármála- og efnahagsráðherra um þessar nýju höfuðstöðvar. Í fyrirspurn Birgis á Alþingi er meðal annars spurt um hver sé áætlaður byggingarkostnaður nýju höfuðstöðvanna og hvort fjármálaráðherra, sem handhafi hlutabréfs ríkissjóðs í bankanum, telji bygginguna skynsamlega fjárfestingu.
Þingmaðurinn hefur beðið um svör við ellefu spurningum um höfuðstöðvarnar. Þar á meðal hve stór hluti byggingarinnar verði leigður út undir annað en starfsemi Landsbankans og hvað væntanleg útleiga húsnæðisins muni greiða niður stóran hluta stofnkostnað þess.
Bankasýsla ríkisins hefur enga aðkomu að málinu
Auk þess spyr Birgir hver þróun starfsmannafjölda bankans hafi verið á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2011 og hvað megi gera ráð fyrir að starfsmönnum fækki mikið á næstu 10 árum vegna breytinga í bankastarfsemi.
Hann spyr jafnframt hvort fyrirhuguð framkvæmd sé gerð með samþykki Bankasýslu ríkisins og hvort Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sem handhafi hlutabréfs ríkissjóðs í bankanum, telji bygginguna skynsamlega fjárfestingu. Ekki hefur enn borist svar frá ráðuneytinu.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið heldur á eignarhlutum skattgreiðenda í Landsbanka og Íslandsbanka en felur Bankasýslu ríkisins að fara með þá. Í svari við fyrirspurn Kjarnans í september síðastliðnum til forstjóra Bankasýslu ríkisins um hvort stofnunin hafi haft einhverja aðkomu að þeirri ákvörðun að reisa nýju höfuðstöðvar Landsbankans var svar forstjórans, Jóns Gunnars Jónssonar, einfalt: „Nei.“