Aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar mun breytast með sífellt fleira fólki í eldri lögum samfélagsins. Til að mæta þeirri breyttu aldurssamsetningu er mikilvægt að vel takist til við áhættudreifingu í lífeyrissjóðum landsins. Meðal annars með erlendri fjárfestingu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu framtíðarnefndar.
Smáar breytingar í nútíð geti dregið úr stórum breytingum í framtíðinni
Forsætisráðherra skipaði framtíðarnefnd um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga í júní 2018. Nefndin er skipuð ellefu þingmönnum og er formaður nefndarinnar Smári McCarthy. Framtíðarnefndin er einskonar tilraun til að fá þingmenn til að hugsa á lengri skala en í kjörtímabilum
Fyrsta skýrsla nefndarinnar er komin út og fjallar hún um þróun íslensk samfélags til næstu 15 til 20 ára með áherslu á atvinnu-, umhverfis-, byggða- og lýðfræðiþætti og áhrif þeirra á tekju- og útgjaldaþróun ríkisins.
Fram kemur í skýrslunni að framtíðarnefndin telji mikilvægt að stjórnvöld taki mið af niðurstöðum skýrslunnar við stefnumótun og lagasetningu á komandi árum, með hliðsjón af því að smáar breytingar í nútíð geti dregið úr þörf á stórum breytingum í framtíðinni.
Íslendingar eru að eldast
Í skýrslunni segir að gera megi ráð fyrir miklum breytingum á næstu árum. Þar á meðal í aldurssamsetningu íslensku þjóðarinnar. Íslendingar séu að eldast og mun hlutfall einstaklinga á vinnumarkaði fara lækkandi. Fólki eldra en 70 ára muni fjölga mun hraðar en fólki á aldrinum 20 til 70 ára og að fólki undir 20 fjölga hægar.
Öldrun þjóða hefur margvísleg áhrif á útgjöld hins opinbera. Aukinn heildarkostnaður við alla þætti öldrunar á alþjóðavísu, þar með talið heilbrigðisþjónustu, er áætlaður um 2 prósent af vergri landsframleiðslu árið 2060.
Þá kemur fram í skýrslunni að hlutfallslega mikil atvinnuþátttaka á vinnumarkaði í Evrópu hafi getað að einhverju leyti vegið upp á móti hækkun aldurs á vinnumarkaði. Hins vegar sé talið að eftir árið 2021 muni fjöldi á vinnumarkaði byrja að falla og þar með aukist þrýstingur á lífeyriskerfin í Evrópu.
„Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, ásamt breytingum á flæði fólks milli landa, skapar samfélagslegar áskoranir sem þarf að leysa. Í þessum breytingum felast einnig mikil tækifæri sem þarf að nýta markvisst,“ segir í skýrslunni.
Lífeyrissjóðakerfið skapi Íslandi sérstöðu
Í skýrslunni segir að íslenska lífeyrissjóðakerfið skapi Íslandi mikla sérstöðu við að mæta breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Lífeyrissjóðakerfið byggi á traustum grunni þar sem lögð sé áhersla á langtímavöxt kerfisins og traust á milli kynslóða.
Samkvæmt skýrslunni mun íslenska lífeyrissjóðakerfið áfram byggja á þremur meginþáttum. Í fyrsta lagi skylduaðild allra starfandi manna að lífeyrissjóðum, í öðru lagi fullri sjóðsöfnun, í þriðja lagi samtryggingu sjóðfélaga vegna ævilangra eftirlauna sem einnig veitir þeim og fjölskyldum þeirra tryggingu fyrir tekjumissi af völdum orkutaps og andláts.
Jafnframt segir í skýrslunni að söfnunarsjóðslífeyriskerfið hér á landi sé líklegra til að draga úr kostnaði ríkisins til lengri tíma ólíkt gegnumstreymiskerfum sem finna má í ýmsum ESB-ríkjum.
Tekjur af fjárfestingum í gegnum lífeyrissjóði
Aftur á móti segir í skýrslunni að mikið velti á því að vel takist til við áhættudreifingu íslensku lífeyrissjóðanna, þar á meðal með erlendri fjárfestingu, sérstaklega að teknu tilliti til smæðar íslenska hagkerfisins og áhættu í ríkisfjármálum til lengri tíma.
Samhliða öldrun þjóðar þá fjölgar lífeyrisútgreiðslum á hverjum tíma og samkvæmt skýrslunni verða lífeyrisútgreiðslur meiri en iðgjöld frá miðjum næsta áratug. Þó að ríkið muni hafa auknar tekjur af skattlagningu lífeyristekna þá sé jafnframt ljóst að kostnaður mun fara vaxandi.
Einnig kemur fram í skýrslunni að í framtíðinni muni vaxandi hluti þjóðarinnar hafa tekjur af fjárfestingum og þá aðallega í gegnum lífeyrissjóði en minnkandi hluti mun hafa tekjur af vinnu.
Sjálfvirknivæðing muni allt að fjórfaldast
Í skýrslunni er fjallað um fjölmarga aðra áhrifaþætti sem munu hafa áfram á íslenskt samfélag á næstu tuttugu árum. Þar á meðal aukningu í komu ferðamanna þrátt fyrir tímabundna fækkun á þessu ári og fjölgun fólks sem er af erlendu bergi brotið á Íslandi.
Þá segir nefndin að búast megi við að íslensk hugbúnaðarframleiðsla styrkist og að smáfyrirtækjum einyrkja og starfsmanna í fjarvinnu fjölgi verulega. Jafnframt muni framleiðsla matvæla í gróðurhúsum aukast og sjálfvirknivæðing allt að fjórfaldast.
Nefndin telur enn fremur að þegar árið 2040 renni upp þá hafi dregist verulega úr nýtingu náttúrulegrar orku hér á landi og að elstu orkuauðlindir landsins séu jafnvel að ganga úr sér. Þá kunni fiskveiðar að hafa dregist saman um allt að þriðjung samhliða loftslagsbreytingum.
Lesa má skýrsluna í heild sinni hér.